Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tími til að breyta rétt - rangfærslum sjálfstæðismanna svarað
Föstudagur 26. maí 2006 kl. 12:04

Tími til að breyta rétt - rangfærslum sjálfstæðismanna svarað

Að sögn sjálfstæðismanna hefur það verið markmið þeirra í þessari kosningarbaráttu að ræða einungis sín kosningarmál og afrek síðasta kjörtímabils. Samt hafa þeir undanfarna daga ruðst á ritvöllinn og kallað útreikninga okkar vegna endurkaupa á fasteignum Reykjanesbæjar ranga, ásakað okkur um að sýna ekki útreikninga eða forsendur og fullyrða síðan að við höfum ekki tekið þessa eða hina breytuna með í okkar útreikninga. Hvernig getið þið fullyrt að við höfum ekki tekið tillit til allra þátta þegar þið hafið ekki séð okkar forsendur eða útreikninga?

Það að annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins fullyrði í síðasta tölublaði Víkurfrétta að útreikningar okkar séu rangir er enginn stóridómur. Við hefðum reyndar viljað að hann sýndi fordæmi og kæmi með sína útreikninga til stuðnings sinni fullyrðingu, samskonar og hann er að krefja okkur um.

Hvar eru álit endurskoðenda við sölu á fasteignum Reykjanesbæjar?
Áður en við förum yfir það hvernig við reiknum út endurkaup á fasteignunum, þá spyrjum við er ekki rétt að sjálfstæðismenn sýni okkur íbúunum útreikningana sem voru undanfari þess að sjálfstæðismenn seldu fasteignirnar?

Það er staðreynd að bæjarstjóri lagði ekki fram nein álit frá endurskoðendum máli sínu til stuðnings þegar fasteignirnar voru seldar, en þess í stað vitnaði hann í útreikninga þriggja endurskoðendaskrifstofa sem gerðir voru fyrir önnur sveitarfélög en Reykjanesbæ.

Staðreyndin er að ekkert þessara sveitarfélaga hefur skilið niðurstöðu endurskoðanda sinna líkt og bæjarstjóri Reykjanesbæjar gerði, því ekkert þeirra hefur selt allar sínar eignir og sett í Fasteign og það er reyndar ekkert sveitarfélag á landinu sem selt hefur allar sýnar eignir líkt og Reykjanesbær gerði. Bæjarstjórar Kópavogs og Garðabæjar hafa meira að segja sagt opinberlega að það sé ekki ráð að selja.
Við hjá A-listanum leggjum til við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins haldi sig við fyrri ákvörðun sína og ræði opinberlega einungis um sín kosningarmál og afrek síðasta kjörtímabils og láti okkur um okkar málefni. Ef ykkur í Sjálfstæðisflokkun finnst þið þurfa að verja gjörðir ykkar þá eru hæg heimtökin að birta þessi þrjú endurskoðunarálit sem lágu til grundvallar sölu eignanna.

Bæjarstjóri fer með rangt mál
Það er dapurlegt að bæjarstjóri hafi ítrekað á síðustu dögum gripið til þess ráðs að segja ósatt til um aðkomu fjármálastjóra Reykjanesbæjar að sölu fasteigna Reykjanesbæjar, þegar hann veit betur. Þar sem undirritaður er umræddur fyrrverandi fjármálastjóri Reykjanesbæjar, sé ég mér ekki fært annað en að leiðrétta þessar ásakanir.
Þegar ég benti bæjarstjóra á að forsendur þær sem notaða voru við útreikning á viðhaldi, vöxtum og stjórnunarkostnaði og komu úr smiðju Fasteignar ehf. þyrftu að mínu áliti nánari skoðunar við, tók bæjarstjórinn á það ráð að nýta sér ekki ráðgjöf mína meir og kom ég því ekkert að síðasta þætti söluferlisins. Ég benti þá á að þessar forsendur sem mynda leiguverði væru allt of háar og hefur það komið á daginn – Fasteign hefur lækkað leiguverðið þótt enn sé langt í að kjörstöðu sé náð – leigan er einfaldlega alltof há.

Forsendur fyrir okkar útreikningum
Það sem við ætlum okkur að gera er að kaupa eignirnar aftur með láni sem er að fjárhæð, uppreiknað söluverð að frádregnum eignarhlut okkar í Fasteign. Við gerum ráð fyrir að lánið verði í erlendri sex mynta myntkörfu, jafngreiðslulán til 30 ára með einni afborgun á ári, en fjórum vaxtaafborgunum. Við gerum ráð fyrir að vextir, álag og lántökugjöld verði ekki lakari en Reykjanesbær hefur hingað til fengið. Ef mark er takandi á þeim kjörum sem í boði hafa verið á síðasta misseri þá eru kjörin í dag jafnvel betri en við notum í okkar útreikningum.

Viðmiðunarleiga eru leigugreiðslurnar í dag og þær leiðréttar fyrir arðgreiðslum að frádregnum fjármagnstekjuskatti. Frá þessari tölu drögum við svo afborgun og vexti af láninu. Þá þurfum við að kaupa okkur tryggingar og gera ráð fyrir viðhaldi, en við gerum ekki ráð fyrir að bæta við neinu starfsfólki vegna endurkaupanna, enda var engum sagt upp við sölu þeirra. Viðhaldið er eina talan sem vandasamt er að reikna og kemur sér vel að undirritaður vann á einni af stærstu verkfræðistofu í Reykjavík í 9 ár og get því nýtt mér þá þekkingu við útreikning á viðhaldi sem til þarf.
Þegar búið er að fara gegnum þessa útreikninga standa eftir 180 milljónir eða 720 milljónir á kjörtímabilinu sem við hyggjust nota til að efna okkar kosningaloforð.

Í lok 30 áranna eigum við fasteignirnar skuldlausar sem er skemmtilegri tilhugsun, en að þurfa þá að standa eignalaus í framlengingu á leigusamningum.

Í stað þess að svara málefnalega kjósa sjálfstæðistæðismenn að kalla það grín eða algjöra steypu að hægt sé að gera hlutina á annan máta en þeir hafa kosið að viðhafa í fasteignaumsýslu og dæmir órökstuddur málflutningur þeirra sig sjálfur.

Reynir Valbergsson bæjarstjóraefni A-listans
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024