Tímaspursmál hvenær ekið verður á barn
Helga Guðfinnsdóttir hafði samband við Víkurfréttir og vildi koma á framfæri kvörtun vegna hraðaksturs á Ásabraut í Sandgerði. Sagði Helga að hraðakstur á Ásabraut væri töluverður og síðan í janúar hefðu ökumenn ekið niður fjögur dýr í götunni, sem dæmi má nefna að fyrr í vikunni var ekið á hund sem hlaut bana af.
„Í kosningunum voru frambjóðendur boðnir og búnir til þess að gera allt til þess að sporna við hraðakstri á Ásabraut en það hefur ekkert verið gert. Þó hraðahindranir megi finna í götunni þá eiga ökumenn auðvelt með að aka hratt milli þeirra,“ sagði Helga. „Það er einungis tímaspursmál hvenær það verður ekið á barn við Ásabraut,“ sagði Helga.
Að hennar sögn er hvorki lögreglan né bæjaryfirvöld að sinna þessu vandamáli. Hún hefur haft samband við yfirvöld og fær þau svör að hraðahindranir séu nóg, en sú er ekki raunin og ökuníðingar, sem í flestum tilfellum eru sömu aðilarnir, ná að aka mjög hratt milli þeirra. Helga segist aldrei hafa orðið vitni að því að lögreglan mæli hraða ökumanna í götunni.
Lögreglan með átak
Að sögn lögreglunnar er nú í gangi átak þar sem hraði bíla er mældur og meðal annars standa yfir mælingar á Sangderðis- og Garðvegi. Auk þess er reglubundið eftirlit í þessum bæjum þar sem lögreglan er meðal annars að sporna við hraðakstri með radar-mælingum án þess þó að sérstakar götur séu teknar fyrir. Þó reyni lögreglan að verða við einstökum beiðnum sem berast frá áhyggjufullum íbúum.
Vonandi sér fólk að sér áður en illa fer við Ásabraut eða annarstaðar.