Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tímagarðurinn
Mánudagur 20. nóvember 2017 kl. 14:00

Tímagarðurinn

Guðmundur S. Brynjólfsson, rithöfundur og djákni á Eyrarbakka, hefur sent frá sér skáldsöguna Tímagarðurinn. Útgefandi er Sæmundur.

Tímagarðurinn er saga af leit. Aðalpersónan Brynjar er á þrítugsaldri, ístöðulaus og sorgmæddur, veit hann ekki alveg hvað hann á af sér að gera og veldur bæði móður sinni og kærustu sáru hugarangri og sjálfum sér sömuleiðis, enda er líf hans í öngstræti. En þá grípa forlögin og frændinn Beggi í taumana.

Við kynnumst reynsluheimi íslenskra karlmanna sem sitja í gömlum Rambler sem malar um vegi landsins með viðkomu í sjoppum, á bryggjum, inn til dala og hjá einkennilegum mönnum sem vanhagar um varahluti í bíla. Þá kynnumst við heimsborgaranum og rónanum Tóta í tauinu sem reynist Brynjari betri en enginn – þrátt fyrir gruggugan bakgrunn og sérstaka lífssýn.

Saga þessi á sérstakt erindi við Suðurnesjafólk og þá sér í lagi þá sem unna – og eða búa í Garðinum. Aðalpersónan er úr Garðinum og hans fólk, og sagan gerist þar að hluta – og hefur þess á milli ríkar skírskotanir þangað. Þannig þetta er, með þeim hætti, saga sem talar við Suðurnesjamenn; þannig greinir sagan frá reynsluheimi margra Suðurnesjamanna en höfundur er borinn og barnfæddur á Vatnsleysuströndinni.
Tímagarðurinn er þriðja skáldsaga Guðmundar S. Brynjólfssonar sem einnig hefur sent frá sér leikrit og barnabækur. Eins og fyrri sögur höfundar er Tímagarðurinn fullur af fyndni og lífsspeki sem á varla sinn líka.

...„þetta er, með þeim hætti, saga sem talar við Suðurnesjamenn; þannig greinir sagan frá reynsluheimi margra Suðurnesjamanna en höfundur borinn og barnfæddur á Vatnsleysuströndinni…“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024