Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tilræðið við Árna Sigfússon!
Fimmtudagur 19. nóvember 2009 kl. 08:46

Tilræðið við Árna Sigfússon!

Fulltrúar Samfylkingarinnar í minnihluta bæjarstjórnar í Reykjanesbæ leggja sig fram um að koma því á framfæri að Reykjanesbær sé eitt þeirra sveitarfélaga sem hafa fengið bréf frá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga vegna afkomu ársins 2008.


En til viðbótar hafa þeir, ólíkt flestum öðrum minnihlutum í sveitarfélögum sem hafa fengið slíkt bréf, hamast við að sverta bæði bæjarstjórann og samfélag sitt. Fyrir nokkru birtist grein frá Ólafi Thordersen í Morgunblaðinu um hinn hræðilega bæjarstjóra og slæma fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sem er allt honum einum að kenna. Í síðustu viku kom svo önnur grein, bæði í Morgunblaðinu og á vef Víkurfrétta, frá Guðbrandi Einarssyni sem útlistar mat þeirra á hinni hræðilegu stöðu Reykjanesbæjar. Áhersluatriðið í greinunum er svo alltaf það sama, þau skilaboð að allt sé þetta Árna Sigfússyni bæjarstjóra að kenna.
Með greinum sínum staðfesta þessir greinarhöfundar þá sögu sem gengur í bænum að þeirra eina mögulega leið til valda sé að sverta Árna Sigfússon bæjarstjóra sem mest, þannig,- og aðeins þannig, geti þeir sjálfir hugsanlega náð skárri árangri en þeir gerðu í síðustu kosningum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


En hverjar eru staðreyndir um fjármál Reykjanesbæjar ?
Því miður eru hér lágar skatttekjur á hvern íbúa. Það er verkefni sem meirihluti bæjarstjórnar vinnur að alla daga að breyta með því að búa til störf sem gefa af sér hærri laun. Ennfremur er staðreynd að hér er lítill kostnaður við að veita þjónustu í samanburði sveitarfélaga, en þrátt fyrir það eru gæði þjónustunnar mikil. Þetta er staðfest með tölum í árbók sveitarfélaga og góðri útkomu Reykjanesbæjar í þjónustukönnunum.
Eignastaða Reykjanesbæjar er sterk og yfirlýsingar minnihlutans um annað eru hreinar rangfærslur. Hér hafa verið byggðir upp innviðir samfélagsins og allur aðbúnaður s.s. skóla, menningar, íþrótta, og atvinnulífs eru til mikillar fyrirmyndar.
Skuldastaða Reykjanesbæjar er lægri á hvern íbúa en meðaltal íbúa landsins, það er staðfest í árbók sveitarfélaga og allar reiknireglur Samfylkingarinnar breyta engu um það. Ef breyta á samanburðartölum hjá Reykjanesbæ verður að gera það einnig hjá öllum öðrum sveitarfélögum landsins til þess að samanburðurinn verði réttur.


Árið 2008 var hins vegar erfitt ár í rekstri sveitarfélaga. Reykjanesbær tók á sig tap vegna HS Orku upp á 4 milljarða króna, auk annarra fjármagnsliða upp á u.þ.b. 3 milljarða til viðbótar. Allt kostnaðarliðir sem ekki var unnt að gera ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins þegar hún var unnin. Af þeirri ástæðu var eðlilegt að Eftirlitsnefnd sveitarfélaga sendi sveitarfélaginu bréf til að kanna stöðuna. Það mál er nú í réttum farvegi.


Ég vil skora á fulltrúa Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar að taka upp málefnalegri og jákvæðari umræðu um sveitarfélagið en þeir hafa viðhaft upp á síðkastið, hætta að gera lítið úr þeim góðu verkum sem hér hafa verið unnin og halda umræðunni á málefnanlegum nótum en ekki persónulegum.


Böðvar Jónsson