Tilboð í samstarfi við íslenska banka og sparisjóði
Vegna birtingar aðsendrar greinar, "Frá Pontíusi til Pílatusar", sem er nú sýnileg á vef Víkurfrétta og fjallar um verðskrá Bláa Lónsins og ákveðið tilboð er bjóðast Íslendingum, megum við til með að koma á framfæri smá útlistun á tilboði þessu.
Ákveðins misskilnings virðist hafa gætt vegna þessa en tilboðin sem gilda í vetur eru í samstarfi við íslenska banka og sparisjóði og felast í því að sá/sú sem greiðir með debet- eða kreditkorti fær 1500 króna aðgangseyri í Bláa Lónið fyrir sig.
Tilboðið er hluti af verkefni er ber heitið "Sá einn veit er víða ratar". Verkefnið er samstarfsverkefni Bláa Lónsins, Víkingaheima, Landnámssetursins í Borgarfirði, Kynnisferða og Eldingar. Í samstarfi við banka og Sparisjóði bjóða fyrirtækin þeim sem greiða með íslensku debet- eða kreditkorti sérkjör á þjónustu sinni og gildir tilboðið eingöngu fyrir handhafa kortsins. Tilboðið gildir frá 23. september, 2010 til 1. apríl, 2011.
Tilgangur verkefnisins er sá að hvetja Íslendinga til að nýta sér og kynna sér fjölbreytta afþreyingarmöguleika ferðaþjónustunnar.
Nánari upplýsingar um Sá einn veit er víða ratar má finna með því að smella á linkinn hér að neðan.
http://www.bluelagoon.is/Badstadur/Sa-einn-veit-er-vida-ratar/
Edda Sólveig Gísladóttir
markaðsstjóri Bláa Lónsins