Til upplýsinga varðandi starfsemi Útlendingastofnunar í Reykjanesbæ
Reykjanesbær er eitt af þremur sveitarfélögum á Íslandi sem tekur á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd ásamt Hafnarfirði og Reykjavík. Reykjanesbær veitir um 70 umsækjendum þjónustu hverju sinni og hefur gert um árabil og lagt ríka áherslu á að taka á móti fjölskyldum. Fjölskyldurnar hafa verið búsettar víða í sveitarfélaginu í takt við hugmyndafræði Reykjanesbæjar um dreifingu og blöndun í mismunandi hverfum. Þetta fyrirkomulag hefur gengið vel. Útlendingastofnun hefur þó þrisvar beðið Reykjanesbæ um að auka enn frekar við samninginn sem velferðarráð hefur ætíð neitað. Þrátt fyrir neitun ákvað Útlendingastofnun engu að síður að taka á leigu íbúðarhús í sveitarfélaginu sem rúmar 100 manns með leigusamning til fimm ára.
Fyrir áramót óskaði Útlendingastofnun eftir því að Reykjanesbær taki við allt að 100 einstaklingum búsettum í einu íbúðarhúsi og stækki samning sveitarfélagsins úr 70 í 170 manns.
Útlendingastofnun vill losa sig undan því að veita þjónustu fyrir umrædda 100 aðila. Aðspurð hvort stofnunin myndi útiloka að leigja fleiri húsnæði í sveitarfélaginu ef gengið væri til samninga var svarið einfalt; Útlendingastofnun getur ekki lofað því hvort sem Reykjanesbær styður það eða ekki.
Við veltum fyrir okkur yfirburðum og þvingun ríkis gegn sveitarfélagi en ljóst er að þessi vinnubrögð eru okkur ekki að skapi. Það að taka á móti og þjónusta einstaklinga sem koma og sækja um alþjóðlega vernd er verðugt samfélagsverkefni sem fleiri sveitarfélög verða að sinna. Ábyrgðin getur ekki verið á herðum þriggja sveitarfélaga og það eiga ekki að vera eðlileg vinnubrögð að þvinga sveitarfélög til að stækka þjónustusamninga sína.
Í ljósi þess var lögð fram bókun á fundi velferðarráðs þann 13. janúar sl. sem færði rök fyrir því af hverju Reykjanesbær getur ekki tekið við umræddum samningi. Bókunin var í fimm eftirfarandi liðum:
- Áhrif á innviði sveitarfélagsins og á stofnanir á svæðinu líkt og á sjúkraflutninga, lögreglu og heilbrigðisstofnun eru mikil. Ekkert aukið fjármagn fylgir til umræddra stofnana við aukningu umsækjenda um alþjóðlega vernd sem kemur ofan á þjónustuþörf fjársveltra stofnana.
- Ekki er til formleg stefna dómsmálaráðuneytisins né Útlendingastofnunar um framtíðarúrræði í málaflokknum. Reykjanesbær ítrekar kröfu sína um að mótuð verði formleg stefna af hálfu ríkisins í málaflokknum auk þess verði sveitarfélögum gert skylt að taka þátt í þessu samfélagsverkefni ef ekki tekst að semja um þátttöku þeirra.
- Hugmyndafræði Útlendingastofnunar um að bjóða 100 manns í viðkvæmri stöðu upp á búsetu í sama húsnæði er ekki í samræmi við stefnu Reykjanesbæjar um blöndun og samlögun innan sveitarfélagsins.
- Það að eitt hverfi í sveitarfélagi beri meginábyrgð á búsetu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd ýtir ekki undir jafnvægi í félagslegri blöndun. Slíkur rekstur er ekki í samræmi við áherslur í velferðarþjónustu á Íslandi.
- Útlendingastofnun sendi Reykjanesbæ tilkynningu í kjölfar fundar með allsherjar – og menntamálanefnd þar sem kom fram að stofnunin mun taka yfir stjórnun flæðis til sveitarfélagsins og fullnýta samninginn. Í þessu mun að öllum líkindum felast fækkun á fjölskyldum sem þiggja þjónustu og þrýstingur skapast til að taka á móti fleiri einstaklingum.
Í ljósi þessara atriða sá velferðarráð sér ekki stætt að gera samning um að þjónusta aukinn fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd með því að taka við rekstri húsnæðisins á Ásbrú.
Önnur sveitarfélög verða að sýna samfélagslega ábyrgð og ganga til samninga um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun þarf að setja sér framtíðarsýn í málaflokknum í stað þess að byggja lausnir sínar eingöngu á lausu húsnæði í Reykjanesbæ.
Guðný Birna Guðmundsdóttir
varaformaður velferðarráðs og varaforseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir
formaður velferðarráðs og varabæjarfulltrúi Reykjanesbæjar