Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Til umhugsunar fyrir íbúa Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 6. september 2017 kl. 10:12

Til umhugsunar fyrir íbúa Reykjanesbæjar

Nú í þessum skrifuðu orðum er búið að stöðva starfsemi United Silicon tímabundið eða þar til þeir ná að laga það sem laga þarf og fá það fjármagn sem þeir þurfa til að halda áfram. Margir fögnuðu lokuninni og héldu að Umhverfisstofnun væri búin að skella í lás fyrir fullt og allt en þannig er það nú ekki í raun. Ég ætla ekki í þessum pistli að rekja alla þá sem draga lappirnar í þessu máli og hafa svo sannarlega brugðist þeim skyldum sem þeir eiga að sinna gangvart bæjarbúum og þeim eftirlitsaðilum sem eiga að hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem stunduð er í Helguvík. Nei þangað vil ég ekki fara heldur vil ég skyggnast aðeins inní framtíð bæjarfélagsins Reykjanesbæjar.

Segjum sem svo að báðar þessar verksmiðjur verði starfandi í Helguvík eftir c.a 5 ár. Kísilframleiðsla er mengandi iðnaður og með c.a 8 ofna með öllum þeim viðhalds stoppum og fleiri óviðráðanlegum uppákomum þá verður mengun yfir bænum gífurleg. Það er óyggjandi staðreynd, þar sem þessi kísilver koma til með að brenna mörg hundruð þúsund tonnum af kolum, tréflísum og Kvartsi með tilheyrandi mengun og kolariki.

Þá er spurninginn sú hvort búandi verður í Reykjanesbæ? Verður fólksflótti frá Reykjanesbæ? Verða eignir íbúa verðlausar? Þetta eru spurningar sem við þurfum að fara að velta fyrir okkur, íbúar Reykjanesbæjar ef þessi starfsemi eins og hún hefur verið ákveðin og skipulögð í Helguvík, nær fram að ganga.

Bæjarstjórn og skipulagsráð Reykjanesbæjar þurfa að undirbúa sig undir breyttar aðstæður með því að undirbúa deiliskipulag á öðrum stað á Reykjanesi ef heilt bæjarfélag vill flytja á annan stað, og eru þá ekki Hafnir eða í þá átt út á Reykjanesi ákjósanlegur staður?

Einnig þarf bæjarstjórn að gera ráð fyrir því og undirbúa sig ef allt fer á versta veg og fólk flytur umvörpum út bæjarfélaginu að útsvarstekjur fara snar lækkandi og hvernig þeir ætla að tækla slíkt. Fer þá bæjarfélagið ekki endanlega á hausinn?

Mér þykir vænt um bæjarfélagið mitt og er af fjórðu kynslóð íbúa sem eiga rætur hér þannig að það yrði sárara en nokkuð annað ef þessi bær, Reykjanesbær og bæjarstæðin í Keflavík og Njarðvík færu í eyði vegna mengandi stóriðju. Ég get bara ekki hugsað þá hugsun til enda. Við þurfum virkilega að taka þessa umræðu hér í okkar ágæta bæjarfélagi, horfa lengra fram í tímann og hætta þessum skyndi plástrum sem bjarga engu þegar til langtíma er litið. Við þurfum líka að spyrja okkur sjálf í hvernig bæjarfélagi við viljum búa. Er Reykjanesbær ákjósanlegur sem framtíðar bæjarfélag þegar c.a 8 kísilversofnar verða starfandi með tilheyrandi mengun. Allar þessar spurningar eiga fullan rétt á sér og eru tilefni í frekari samræður og hvet ég alla bæjarbúa til þess að velta þessum spurningum fyrir sér og ræða sín á milli.

Margrét S Þórólfsdóttir.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024