Til umhugsunar!
-Uppsagnir af skipulagsástæðum
Einn verðmætasti réttur hvers manns er ráðningarsamningur við launagreiðanda. Það að vera í ráðningarsambandi er grundvöllur fyrir því að maður geti rekið sitt heimili, greitt af húsnæði og almennt lifað sjálfstæðu lífi.
Það má alltaf deila um hvort kaupið sé nógu hátt eða hvort vinnan sé skemmtileg. Það er jafnframt einn ríkasti réttur vinnuveitenda að haga rekstri sínum eins og best þeir kjósa. Þeir sem ráða fólk í vinnu mega líka segja því upp.
Ráðningarsambandi geta menn svo lokið með því að segja starfi sínu lausu eða þá að vinnuveitandi ákveði að ljúka ráðningarsambandi. Fyrir því liggja yfirleitt haldbær rök s.s að launþegi hafi ekki staðið sig sem skyldi, breytingar verði á aðstæðum eða að eitthvað betra starf hafi boðist. Þá gera menn samkomulag um ráðningarslit. Oftast eru þau gerð í góðu milli aðila en stundum er ágreiningur ástæðan.
Þegar risa ríkisfyrirtæki í fullum rekstri með hundruði manna í vinnu segja upp ráðningasamabandi við launþega á grundvelli skipulagsbreytinga þá setur mann hljóðan. Í stóru fyrirtæki með hundruð starfa er það álitin betri leið að senda menn heim á miðjum morgni með uppsagnarbréf vegna þess að starfið sem þeir unnu hefur verið lagt niður. Ekkert boð um að færa sig til innan fyrirtækis. „Það er nefnilega svo erfitt að færa fólk til og formúlan segir að viðkomandi starfsmaður verði svo leiðinlegur við slíkar breytingar að slíkt er ekki fyrirhafnarinnar virði“ eru svörin sem gefin eru ef spurt er hvort engin störf hafi virkilega verið til handa viðkomandi innan fyrirtækisins.
Miklu betra er að ganga í þetta af hörku, segja viðkomandi upp. Reyna að láta þetta lúkka vel með að bæta einum eða tveimur mánuðum við lögbundinn uppsagnarfrest. Skrifa undir í hvelli, taka í spaðann á þessum rekna og halda áfram að reka nútíma fyrirtæki með mannauðs- og markaðs-, framkvæmda- og viðburðastjórum í löngum röðum.
Þegar hugmynd sem lítur svo vel út í excel er yfirfærð á hinn bitra veruleika fólks sem sagt er upp á grundvelli þess að það hafi verið að vinna í tilgangslausum störfum, sem ekkert mál er að leggja niður fyrir morgunkaffi, fer ljóminn af hagræðingunni sem í uppsögninni fólst.
Sumir vinnuveitendur hafa vissulega ríkisstyrkt valdið til að ráða fólk og reka, en það þarf samt ekki að þýða að mátturinn og dýrðin fylgi í vegferð þeirra.
Kristján Jóhannsson
formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins.