Til umhugsunar ( leiðrétting)
Árni Sigfússon skrifar áhugaverða grein í Morgunblaðið 8.ágúst s.l. þar sem umræðuefnið er aðkoma ríkisins að verkefnum í Reykjanesbæ og góður árangur sjálfstæðismanna þar í bæ. Ekki ætla ég nú að svara fyrir ríkistjórnina, þeirra fulltrúar sjá um það, en ekki verður setið hjá þegar svo einhliða er fjallað um málefni Reykjanesbæjar.
Stjórnmálaumræða á Íslandi hefur á undanförnum árum borið keim af þráhyggju og ómálefnalegri gagnrýni þar sem sannleikurinn er stundum víðs fjarri. Við vitum að sannleikurinn er stundum ekki öllum auðfundinn en í raun er hann ætíð sagna bestur.
Sjálfstæðismenn hafa undanfarin 3 kjörtímabil verið með hreinan meirihluta í Reykjanesbæ og bera því einir ábyrgð á stöðu bæjarsjóðs hvort sem þeim líkar betur eða verr. Allt frá árinu 2002 hafa sjálfstæðismenn haft það á stefnuskránni að skuldsetja bæjarsjóð, selja eignir og árangurinn er sá, öfugt við það sem Árni Sigfússon sagði í grein sinni, að Reykjanesbær er nánast á kúpunni. Reykjanesbær hefur ekki haldið sjó.
Frá 2004/5 hófst markviss herferð um að fjölga íbúum annars vegar og safna skuldum hins vegar. Skuldir hafa sexfaldast á þessum árum og reksturinn verið lengst af neikvæður þrátt fyrir mikla eignasölu.
Öll atvinnuþróun byggðist á stórum lausnum, stálpípuverksmiðja, Geysir Green, álver og misheppnuðum seglum (Víkingaheimum) í ferðaþjónustu. Allt var fyrst blásið upp í fjölmiðlum og „Himnaríki Árna“ og hans fylgisveina kynnt sem draumadvalarstaðurinn á Suðurnesjum. Þeir sem gagnrýndu voru úrtölumenn og á móti framförum, fjölmiðlar voru á móti Árna og öll gagnrýni röng og ámælisverð.
Yfirlýsingar sjálfstæðismanna voru ætíð á þann veg að þeir gætu gert þetta sjálfir án aðstoðar ríkistjórnar, hún flæktist bara fyrir. Í Reykjanesbæ ríkti kóngaveldi, hagsmunir stjórnmálamanna vafðir inn í vafninga og útvaldir stjórnuðu fyrirtækjum og sveitarfélaginu.
Núna er sannleikurinn kominn í ljós, draumurinn rættist ekki og stóru loforðin svikin, bæjarsjóður fer halloka og núna er öðrum kennt um það sem aflaga hefur farið. Hvort um sé að ræða Álver, gagnaver, höfn eða kísilver allt er ríkistjórninni að kenna. Mest kemur þó á óvart að ríkistjórninni er einnig kennt um að Ásbrú ( gamla herstöðin) sé ekki sá draumastaður sem að var stefnt. Þar er þó rekinn skóli (Keilir) kostaður af ríkinu og Þróunarfélag (Kadeco) sem einnig er jú kostaður af ríkinu.
Hversu langt skal haldið í blekkingunni, hvenær ætla sjálfstæðismenn að axla ábyrgð á sínum verkum?
Tjaldið er fallið, Reykjanesbær er í skuldaklafa, Víkingaheimar gjaldfallnir, hljómahöllin fokheld og atvinnuleysi 12%. Laun starfsmanna lækkuð og starfshlutföll skert, sjóðir eru tómir og yfirdrættir í botni og samdráttur á öllum sviðum. Þetta eru verk sjálfstæðismanna og engum öðrum er að kenna en þeim.
Stefna sjálfstæðismanna hefur brugðist, hugmyndir um íbúafjölgun ( hver man ekki eftir skiltinu góða við Reykjanesbrautina) voru byggðar á sandi því ljóst var frá byrjun, að herinn var á leiðinn burt og því atvinnuleysi í vændum og ekki þörf á fjölgun íbúa á þeim tíma. Fólksfjölgunin hefur því miður reynst bæjarsjóði erfið og dýr og með öllu ótímabær og aukið atvinnuleysi komið í kjölfarið.
Skuldsetning, fjölmiðlastýring og umkenningarstjórnmál voru lykilatriði í stefnu sjálfstæðismanna frá 2002 -2011 og því miður virðast enn vera við lýði í dag.
Friðjón Einarsson
Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ