Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Til umhugsunar
Mánudagur 8. ágúst 2011 kl. 11:15

Til umhugsunar


Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því í Reykjanesbæ að styrkja stoðir atvinnulífs. Það verkefni var vel hafið áður en bandaríski herinn ákvað að yfirgefa svæðið fyrir 5 árum með starfamissi 1100 manna á vallarsvæðinu á aðeins 6 mánuðum og verulegum skerðingaráhrifum á margvísleg þjónustufyrirtæki í bænum okkar. Ég hef ítrekað sagt að ef slíkt áfall hefði dunið yfir Reykjavík í sama hlutfalli á 6 mánuðum, hefði ekki bara Reykjavíkurborg lýst yfir neyðarástandi, heldur ríkið.

Þess vegna þurfti að tefla djarft til að koma atvinnulífinu í gang og standa þétt að baki fyrirtækja sem huguðu að rekstri. Sýn okkar á fjölbreytt og vel launuð störf sem byggðu á styrkleikum svæðisins; raforku, heitum jarðvökva, alþjóðaflugvelli og góðri hafnaraðstöðu, mótaði markmið og fjárfestingar í innviðum. Við lögðum mikið upp úr að taka vel á móti erlendum fjárfestum, laða inn fjármagn í landið og byggja fjölbreyttar stoðir í atvinnulífinu. Einmitt þess vegna eru nú fjölmörg atvinnutækifæri á borðinu ýmist á verkfræðistofum, í fjármálastofnunum, í viðskiptasamningum eða í verkframkvæmd. Stærstu verkefnin eru álver, kísilver, rafrænt gagnaver, efnaverksmiðja, hafnarframkvæmdir, menntastofnunin Keilir, listhús, seglar í ferðaþjónustu, gróðurhús, fiskeldisstöðvar, sjávarútvegsklasi, virkjanir og einkasjúkrahús fyrir útlendinga.

Ljóst að við sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ, erum ekki samflokksmenn þeirra sem sitja í ríkisstjórn. Ég hef samt talið mikilvægara að ná saman um verkefni, en hanga í flokksskírteinum. En verkefnin eru pólitískt tengd. Pólitískir andstæðingar hnýta í álverið og þar með hafnarframkvæmdir í Helguvík, segja lítið um kísilverið, eru andvígir stækkun virkjunar á Reykjanesi, hafa neikvæðar skoðanir á heilsutengdri ferðaþjónustu ef hún tengist stofnun einkasjúkrahúss og láta skattamál flækjast fyrir rafrænu gagnaveri. Málið er því pólitískt.
Ég vil síður trúa því, sem stundum er haldið fram, að þessi mikla tregða til að styðja okkur og þar með þjóðina í að skapa þúsundir vel launaðra og fjölbreyttra starfa fyrir Íslendinga og milljarða skatttekjur fyrir ríkið, tengist því að við sjálfstæðismenn höfum haft hreinan meirihluta í Reykjanesbæ frá árinu 2002.
Hér mun ég lýsa því sem ég tel að skorti á hjá ríkisstjórninni gagnvart umræddri atvinnu uppbyggingu, hver sem orsökin er:
Stuðningur við framkvæmdir í Helguvíkurhöfn eru mjög af skornum skammti hjá ríkisstjórninni. Verkefnið kom inn í fyrsta stöðugleikasáttmálann – en ekkert gerist. Af höfn í Helguvík er augljós framlegð til ríkisins með tilkomu kísilvers og álvers, sem geta aukið tekjur ríkisins um yfir milljarð á mánuði næstu 50 árin – 29 þingmenn hafa lagt fram frumvarp um þennan stuðning en fæst ekki afgreitt úr nefnd.
Árið 2009 var óskað eftir tímabundinni leigu á tveimur ónotuðum, nýjum skurðstofum HSS til að hefja innflutning á sjúklingum sem þurfa að fara í liðskiptaaðgerðir eða fitusogsaðgerðir. Ný atvinnugrein gat skapast og mjög mikilvægt að geta farið af stað með þessum hætti, en framtíðarsýn var að endurnýta hersjúkrahúsið á gamla varnarsvæðinu ásamt hundruðum íbúða sem hægt var að tengja við heilsuferðamennsku. Engin mengun, ný tækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk, mikil sköpun gjaldeyris og góð laun. Fyrstu tveir heilbrigðísráðherrar þessarar ríkisstjórnar voru hreinlega á móti, loks samþykkti sá þriðji en neikvæðni og tafir á afgreiðslu málsins hafa valdið því að líklega verður ekkert úr verkinu.

Í kjölfar háværrar fjölmiðlaumræðu um þjóðareign á jarðauðlindum samþykkti ríkisstjórnin að ganga til viðræðna um boð Reykjanesbæjar um að „þjóðin eignaðist auðlindirnar“ undir orkumannvirkjum HS orku. Ekki virtist nægja að sveitarfélagið hafði keypt þær á sínum tíma og skuldsett sig vegna þess. Erindi um þetta var samþykkt af Reykjanesbæ fyrir 7 mánuðum síðan. Tveir sérfræðingar frá báðum aðilum voru fengnir til að meta verðmæti og komust að sömu niðurstöðu. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir afgreiðir ríkið ekki erindið. Getur verið að nú liggi ekkert á að þjóðin eignist auðlindirnar af því að fjölmiðlaumræðan snýst ekki um það í dag? Eða vill ríkisstjórnin ekki að bærinn geti lækkað skuldabyrði sína?
Afgreiðsla á viðbótar virkjanaleyfi frá ríkinu til HS orku á Reykjanesi, sem metið er af nefnd um orkuauðlindir, sem eitt hagstæðasta svæðið til virkjana, hefur ekki fengist í þrjú ár. Þetta átti að vera næsta virkjanaverkefni HS orku fyrir álver í Helguvík. Enn skortir á þrýsting af hálfu stjórnvalda.
Samningar um orku til álvers í Helguvík tengjast þremur orkufyrirtækjum; HS orku, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun. Litlu hefur miðað í samningum undanfarin þrjú ár. Ekki er samstaða í núverandi ríkisstjórn um stuðning við þetta mál og þrýstingur á það er afar léttvægur og oftar neikvæður. Þegar iðnaðarráðherra hefur hvatt málið áfram koma fleiri ráðherrar sem tala það niður, þrátt fyrir undirritaða fjárfestingarsamninga ríkisins um annað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Allt frá því undirritun kísilverssamninga þar sem ráðherrar mættu og mynduðu sig eins og þeir hefðu fært Reyknesingum verkefnið, hefur ekki heyrst hósti eða stuna frá ráðamönnum. Ég efast um að þeir hafi átt einn fund með forsvarsmönnum, tekið upp símtól, hvað þá farsíma til að spyrjast fyrir um gang verkefnisins hjá forsvarsmönnum þess, hvað þá spyrja hvort þeir geti liðkað til á einhvern hátt. Í staðinn neita þeir að afgreiða 29 þingmanna frumvarp um stuðning við höfnina í Helguvík, sem er undirstaða þessa verkefnis. Sá stuðningur átti að vera sambærilegur og hefur fengist fyrir aðrar stórskipahafnir sem eru að skila ríkinu verulegum tekjum.
Fimm þúsund fermetra skel með tómu innihaldi stendur að Ásbrú, gamla varnarsvæðinu, sem áminning um að ekkert hefur gerst í uppbyggingu rafræns gagnavers sem gæti skilað tugum vel launaðra tæknistarfa. Fyrirtækið er til staðar, fjármagn er til staðar, allt klárt af hendi Reykjanesbæjar, en ágreiningur hefur verið við ríkið um skattaleg atriði þeirra erlendu aðila sem vilja koma að þessari nýju atvinnugrein hér á landi. Hér er vistvæn starfsemi á ferðinni. Enn er spurt um áhuga og þrýsting stjórnvalda til að leysa málið?

Sjávarútvegur á Reykjanesinu er enn sterkur. Grindavík og Sandgerði halda uppi merkinu með löndun og vinnslu en fiskvinnsla er enn í Reykjanesbæ og Garði. Innflutningur af fiski á svæðið til vinnslu er mun meiri en aflinn sem berst að landi á svæðinu. Það er því sjávarútvegur sem hefur verið að halda uppi velferð svæðisins á meðan allt annað er í biðstöðu. Hugmyndir ríkisins um að kollvarpa kvótakerfinu munu ekki síður koma niður á þessum byggðarlögum en öðrum sjávarbyggðarlögum. Nefnd sjávarútvegsráðherra hefur sjálf mælt gegn því þar sem hún muni kollvarpa arðsemi greinarinnar. Ekki er að finna að þingmenn stjórnarinnar, þótt þeir tilheyri svæðinu, séu að berjast gegn hættunni.
Að þessu sögðu er ekki óeðlileg spurning hvort það geti verið að þessi ríkisstjórn sé svo rígbundin flokkadráttum að hún sjái ofsjónum yfir sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ sem hafa haldið sjó og hreinum meirihluta þrátt fyrir ótrúlegar fjölmiðlaárásir. Vissulega höfum við sjálfstæðismenn teflt djarft í fjárfestingu undir atvinnulífið. En mín sannfæring er að það var skynsamlegt og nauðsynlegt í ljósi aðstæðna og það mun skila samfélaginu verulegum arði.
En tafirnar kosta bæjarfélagið tímabundið gríðarlega fjármuni. Það veit ríkisstjórnin. Spurningin er hvers vegna öll þjóðin eigi að gjalda fyrir með tapi á milljarða skatttekjum á ári hverju en fá í staðinn óhóflega skattheimtu á alþýðu manna. Þetta þarf ekki að vera svo. Við landsmenn þurfum ríkisstjórn sem stendur með okkur, hvetur fjárfesta áfram og liðkar til þar sem það er mögulegt. Það er ekki að gerast. Raunhæf verkefni eru ennþá fleiri en þau fjölmörgu sem ég hef hér nefnt.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.