Til hamingju Reykjanesbær
- Aðsend grein frá Árna Sigfússyni
Uppbyggingarstefna síðustu ára undir forystu Sjálfstæðisflokksins er nú að skila bæjarsjóði stórauknum tekjum. Áhersla þessarar stefnu á uppbyggingu mikilvægra innviða eins og leikskóla, grunnskóla, menningar- íþróttaaðstöðu, gatna, atvinnu- og íbúðarlóða, hefur búið bæinn undir að taka við verulegri aukningu íbúa. Það skilar nú tekjum í bæjarsjóð langt umfram kostnað. Við erum einnig stolt af þeirri áherslu á að hafa stórbætt sjálft leik- og grunnskólastarf, sem hefur skilað skólum Reykjanesbæjar í hóp hinna bestu á landinu.
Launakostnaður hefur alltaf verið lágur
Þekkt er sú staðreynd að undir forystu Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn var launakostnaður bæjarins á hvern íbúa einn sá lægsti á meðal sveitarfélaga. Þetta hafði tekist að gera þrátt fyrir hátt þjónustustig. Það er fagnaðarefni að nýjum meirihluta hefur áfram tekist að halda í þessa stefnu og veita gott rekstraraðhald, um leið og haldið er í gott þjónustustig.
Mikil uppbygging – miklar tafir í tekjum
Enginn fer í grafgötur með að uppbyggingarstefnan var okkur kostnaðarsöm því lán þurfti til fjárfestinga en brotthvarf varnarliðsins og efnahagshrun voru glímur sem þýddu verulegar tafir í að tekjur stæðu á móti mikilli fjárfestingu. Þessi uppbygging fyrri ára hefur þó leitt til þess að við höfum getað mætt einni mestu fólksfjölgun á landinu án þess að leggja í kostnaðarsamar framkvæmdir á þessu kjörtímabili. Tölur ársreiknings ársins 2016 sýna svo ekki verður um villst að nú hefur atvinnulífið tekið mikinn kipp og atvinnuleysi er í lágmarki. Þannig hafa tekjur bæjarins stóraukist á meðan kostnaður, m.a. af atvinnuleysi og félagslegri þjónustu hefur lækkað verulega.
Allt að takast án skuldaniðurfellinga
Skuldaviðmið lækkar hratt og allt útlit fyrir að Reykjanesbær uppfylli kröfur um skuldahlutfall innan ársins 2022 eins og lög gera ráð fyrir. Það mun gerast þrátt fyrir að ekki hafi orðið úr ítrekuðum fullyrðingum og stórfyrirsögnum um að eina leiðin til að standast kröfur ríkisins um ákveðið skuldahlutfall væri að fá milljarða af skuldum bæjarins eða hafnarinnar niðurfellda. Með auknum tekjum erum við nú að standast þessi ríkisviðmið, án skuldaniðurfellinga.
Til hamingju Reykjanesbær.
Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri