Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Til hamingju íbúar!
Sunnudagur 31. ágúst 2014 kl. 07:00

Til hamingju íbúar!

Árni Sigfússon skrifar

Í vikunni var fagnað skóflustungu að kísilveri United Silicon í Helguvík.

Uppbygging kísilversins í Helguvík  er dæmi um gríðarlega seiglu þeirra sem að stóðu. Með því að neita að gefast upp, finna lausnir á erfiðum tímum, hefur loks markmiðinu verið náð. Orkusamningar eru frágengnir, fjármögnun er tilbúin og byggingarframkvæmdir sem skapa hundruðum manna atvinnu eru að hefjast. Í kjölfarið hefst síðan framleiðsla þar sem á þriðja hundrað manns munu hafa vel launuð störf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var ákvörðun okkar sem stýrðum bæjarfélaginu að standa með upphafsmönnum verkefnisins, Magnúsi Garðarssyni og félögum, í gegnum ýmsa erfiðleika. Þar fór maður sem leitaði lausna þegar erlend fyrirtæki heltust ítrekað úr lestinni, fann nýja samstarfsaðila og hélt áfram. Það var úrslitaatriði að við stjórnendur bæjarins gæfum honum það svigrúm sem hann þurfti þegar allt virtist vera að slitna, til að ná endum saman, standa með honum á erfiðum tímum. Seigla og þolinmæði beggja aðila hefur nú skilað árangri.

Því miður hafa margir verið til þess að tala þetta verkefni niður. Skemmst er að minnast þegar fullyrt var að lóðarframkvæmdir rétt fyrir bæjarstjórnarkosningar væru aðeins sjónarspil Árna Sigfússonar og sjálfstæðismanna. Sagt var að ræðan um að kísilverið væri að koma væri innihaldslaus og nú væru menn svo úrvinda að þeir stilltu upp tækjum í lóðarframkvæmdir rétt fyrir kosningar. Nefnd voru dæmi um að United Silicon hefði ekki einu sinni greitt reikninga fyrir lóðinni. Það átti að vera dæmi þess hvað þetta mál væri mikill tilbúningur. Þeir sem þannig töluðu hefðu án efa fyrir löngu hent þessum aðilum fyrir borð.

Nú er hið rétta komið í ljós og vonandi fagna allir. Annað kísilfyrirtæki er skammt undan. Það er fyrirtækið Thorsil, sem hefur fengið lóð vestan við United Silicon og er nú í umhverfismati. Fleiri spennandi verkefni eru á leiðinni í okkar ágæta bæ, sem þýða góð störf og auknar tekjur fyrir samfélagið allt.

Það er óvíst að bæjarbúar geri sér grein fyrir mikilvægi þess að við sem stýrðum bæjarfélaginu síðasta áratug gæfum aldrei upp baráttu fyrir fleiri atvinnutækifærum með betur launuðum störfum. Það þýddi auðvitað að fylgja verkefnum fast eftir með óbilandi trú á tækifærin og fólkið á Reykjanesi, þrátt fyrir mótbyr. Ég leit á það sem mitt stærsta hlutverk að gefast aldrei upp á neinum sviðum sem snertu íbúa og tækifæri á Reykjanesinu.

Þótt það verði ekki úr stóli bæjarstjóra, mun ég fylgja því eftir að slík verkefni verði til og að þau geti risið hér í Reykjanesbæ, ef þess er nokkur kostur. Ég óska bæjarbúum til hamingju með nýtt glæsilegt fyrirtæki; United Silicon.

Árni Sigfússon