Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Til hamingju Grindavík
Föstudagur 30. júlí 2010 kl. 11:32

Til hamingju Grindavík


Ég óska Grindvíkingum til hamingju með nýja bæjarstórann. Ég hef unnið með Róbert Ragnarssyni að bæjarmálum í Vogum og veit af reynslu að þar fer öflugur starfsmaður. Hann á sinn þátt í því að sveitarfélagið okkar stendur mjög vel og fór betur út úr hruninu en flest önnur. Eftir fréttum að dæma hefur náðst full samstaða meðal bæjarfulltrúa í Grindavík um að ráða Róbert. Margir Grindvíkingar þekkja til Róberts, bæði sem bæjarstjóra í Vogum og einnig starfaði hann fyrir Grindavíkurbæ um tíma fyrir nokkrum árum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var ömurleg staða sem kom upp í Sveitarfélaginu Vogum í kosningunum í vor að ekki náðist samstaða um að endurráða Róbert. Ábyrgðin á því hvílir m.a. á okkur í E-listanum, sem réð Róbert hingað og var með hreinan meirihluta síðasta kjörtímabil. Við lögðum ekki nóga áherslu á að útskýra verk okkar og stefnu og að leiðrétta ýmsar ranghugmyndir sem fram komu í kosningabaráttunni. Ég var einn þeirra sem hélt því fram að verk okkar myndu tala fyrir sig sjálf en það reyndist rangt.

Sumar ákvarðanir bæjarstjórnar bitna á vissum einstaklingum jafnvel þó þær séu samfélaginu til góðs til lengri tíma litið. Róbert var faglega ráðinn bæjarstjóri og hlutverk hans að koma ákvörðunum bæjarstjórnar í verk, bæði þeim vinsælu og líka þeim óvinsælu. Fólk áttar sig ekki alltaf á hvar pólitíska ábyrgðin liggur og getur átt það til að hengja sendiboða vondra tíðinda.

Það er undarleg ráðstöfun að ráða hingað ungan, röskan og vel menntaðan bæjarstóra sem stendur sig með prýði og láta hann svo fara strax eftir 4 ár. Það er léleg nýting á mannauði. Fjölskylda Róberts flutti úr Reykjavík í Voga eftir að hann var ráðinn hingað og byggði sér hér hús. Þar bættist yndisleg fjölskylda við samfélagið okkar sem hlýtur nú að flytja brott a.m.k. um sinn. Valgerður, eiginkona Róberts, hefur látið að sér kveða í félagsmálum hér og börnin frábærir nemendur í skólanum. Ég mun sakna þeirra allra en er huggun í að vita af þeim hjá góðu fólki í Grindavík.

Það er huggun harmi gegn að Eirný Vals, (sem var ráðin hingað sem bæjarritari á miðju kjörtímabilinu) er prýðilega fær og líkleg til alls góðs sem bæjarstjóri og pólitísk sátt um hana. Ég er því bjartsýnn fyrir okkar hönd og endurtek hamingjuóskir til granna okkar, Grindvíkinga.

Þorvaldur Örn Árnason

íbúi í Vogum