Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Til bæjarstjóra á Suðurnesjum og annara áhugasamra
Föstudagur 8. maí 2009 kl. 14:37

Til bæjarstjóra á Suðurnesjum og annara áhugasamra

-vegna Hitaveitu Suðurnesja


Bæjarstjórar úr fjórum sveitarfélögum héðan af Suðurnesjum,  hafa  brugðist við aðsendri og óundirritaðri fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ og lýst yfir megnri óánægju vegna þeirra orða sem þar koma fram, um að þegar önnur sveitarfélög seldu hluti sína í Hitaveitu Suðurnesja hafi Reykjanesbær staðið vaktina.

Þessum bæjarstjórum til upplýsingar er rétt að fram komi að þessi orð eru kominn frá bæjarstjóra Reykjanesbæjar,  Árna Sigfússyni . Hann lét þau falla þegar að hann kynnti ársreikning Reykjanesbæjar á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag.  Þessi orð voru ásamt fleiru notuð til þess að réttlæta skelfilega niðurstöðu ársreiknings.

Á heimasíðu Reykjanesbæjar er hægt að hlusta á bæjarstjórnarfundi og má heyra  bæjarstjóra segja eftirfarandi:

„Og það er auðvitað ástæða til þess að horfa til þess að þegar að önnur sveitarfélög seldu sinn hlut í Hitaveitunni og lögðu hagnað á  ávöxtunarreikninga þá stóð Reykjanesbær vaktina, til að tryggja stöðu Hitaveitunnar sem öflugs vinnuveitanda og fyrirtækis í  kjarna atvinnusköpunar sem við erum auðvitað að byggja upp hér.“

Bara svo að því sé einnig til haga haldið, þá voru bæjarfulltrúar A-listans í Reykjanesbæ á móti allri þessari einkavæðingarvitleysu  og komu þeim sjónarmiðum sínum á framfæri á þessum tíma.  Þá greiddu bæjarfulltrúar A-listans einnig atkvæði gegn því að sjálfstæðismenn seldu af hlut Reykjanesbæjar í Hitaveitunni.  Við töldum á þeim tíma að sveitarfélögin hefðu átt að sameinast um að koma í veg fyrir sölu ríkisinsins til einkaaðila en við áttum okkur ekki  skoðanabræður né systur  á þeim tíma. 

Við töldum okkur vera að standa vaktina en við vorum ekki á sömu vakt og sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ.

Guðbrandur Einarsson
oddviti A-listans í

bæjarstjórn Reykjanesbæjar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024