Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þyrstir þig í að skapa og framkvæma?
Þriðjudagur 20. september 2011 kl. 09:38

Þyrstir þig í að skapa og framkvæma?

Dagana 30. september til og með 2. október verður ANH helgi á Suðurnesjum. ANH er skammstöfun fyrir atvinnu- og nýsköpunarhelgi. Til að samfélag vaxi og dafni er atvinna nauðsynleg. Svo hinar ýmsu greinar atvinnulífsins eflist og þróist er nýsköpun frumskilyrði. Ég býst við að við vitum flest hvað atvinna er. Hins vegar held ég að okkur finnist mörgum að nýsköpun sé helst á sviði kjarneðlisfræði eða geimvísinda. Svo er ekki. Nýsköpun er ný eða marktækt betri afurð (þjónusta eða hlutur), framleiðsluferli, leið til sölu- eða markaðssetningar, stjórnunaraðferð eða skipulagsfyrirkomulag innan fyrirtækis eða stofnunar. Nýsköpunin getur ýmist verið ný fyrir tiltekið fyrirtæki, land, markaðssvæði eða heiminn allan. Til þess að teljast nýsköpun verður afurðin, ferlið eða aðferðin að komast í gagnið. Þannig geta nýjar afurðir ekki talist nýsköpun nema þær fari á markað. Hið sama má segja um ný ferli og aðferðir. Þær teljast aðeins nýsköpun sé þeim hrint úr vör innan fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Stundum finnst okkur þægilegra að skipta orðinu nýsköpun út með orðunum þróun, hönnun eða skapandi hugsun.

Suðurnesin iða af lífi. Þar eru margir sem hafa komið góðri hugmynd í framkvæmd. Á Suðurnesjum eru margir sem hafa frumkvæði, kjark, þor og áræðni til að fylgja eftir hugmynd svo hún verði að veruleika. Stundum er sagt að til að nýsköpun eigi sér stað verði fólk að vera tilbúið að vinna. Það er vinna að koma nýju hugverki á koppinn en einnig óskaplega gaman. Það er sérstaklega gaman þegar unnið er í hóp. Það er eins og hugmyndir stækki og verði áþreifanlegri þegar sagt er frá þeim í hóp sem allur er af vilja gerður til að koma sem flestu í verk.

Já, Suðurnesin iða af lífi og sá hluti sem ég þekki best, Sveitarfélagið Vogar, er líkt og smækkuð mynd af Suðurnesjunum öllum. Á innan við ári hef ég séð margar hugmyndir þar verða að veruleika, ýmist að nýju fyrirtæki í fullum rekstri eða grein út frá þegar starfandi fyrirtæki.

Nýverið gaf sjúkranuddarinn Elsa Lára Arnardóttir út bók um ungbarnanudd (Nudd fyrir barnið þitt). Nú heldur hún námskeið í ungbarnanuddi samhliða því að reka Sjúkranuddstofu Elsu Láru.

Mæðgurnar Þóranna og Brynja hófu rekstur flatkökugerðar á Hafnargötunni í Vogum. Þær hafa lengi bakað heimsins bestu flatkökur en ákváðu fyrr á þessu ári að stíga skrefið og stofna fyrirtækið Tótu flatkökur. Nú er hægt að fá ýmislegt góðgæti hjá þeim.

Diljá Jónsdóttir er klæðskeri. Hún hannar vörulínuna Húnihún sem er fyrir börn og selur í Kirsuberjatrénu á Vesturgötunni í Reykjavík.

Jörundur Guðmundsson vann að hugmynd og opnaði veitingastaðinn Gamla Pósthúsið. Þar er hægt að fá afbragðs pizzur. Á næstu vikum verður farið að bjóða upp á ýmislegt fiskmeti. Aðallega er horft til silungs sem ræktaður er á Suðurnesjum og kræklings sem ræktaður er út af Vogum.

Birgir Þórarinsson býr á Minna Knarrarnesi. Í sumar var opnuð bændagisting þar. Sú eina á Vatnsleysuströnd.
Inga Rut Hlöðversdóttir lauk gullsmíðanámi í vor. Nú rekur hún gullsmíðastofu í Vogum. Þar er margt forvitnilegt að finna.

Marta Jóhannesdóttir í Hlöðunni vinnur að menningarmálum. Fyrir utan að halda markaði, gjörningahátíðir og bjóða upp á hljóðver þá er hún að koma gestaíbúð fyrir listamenn á kortið. Á þessu ári hafa þrír listamenn dvalið í Vogum og unnið að grein sinni.

Mótorsmiðja. Í haust hefur mótorsmiðja starfsemi. Það er hugmynd sem hefur lengi legið í loftinu. Nú er komið húsnæði, nokkrir áhugasamir hafa boðið fram krafta sína. Líklega verða fyrstu skrefin stigin um líkt leyti og ANH helgin verður.

Hér hef ég talið örfá af nýjum tækifærum sem hafa orðið að veruleika í Vogum árið 2011. Ég er viss um að engin af þessum hugmyndum hefðu orðið að veruleika ef þeir sem fengu þær hefðu ekki talað um þær, myndað hóp, deilt þeim með öðrum. Verið tilbúnir að vinna. Séð fyrir sér þróun og haft gaman að. Margir hafa hugmynd sem þeir vilja gjarnan deila með öðrum. Aðrir vilja þróa hugmynd sem aðrir eru með. Allir sem vilja vera með til framtíðar eru velkomnir á ANH sem haldin verður á Suðurnesjum. Þú þarft ekki að hafa viðskiptahugmynd til þess að taka þátt. Það eina sem þarf er opið hugarfar og vilji til þess að vinna hörðum höndum að framgöngu viðskiptahugmyndar, þinnar eigin eða annarra. Skráning er á vefsíðunni www.anh.is
Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest.

Eirný Vals,
bæjarstjóri Sveitarfélaginu Vogum



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024