Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Þverpólitísk samstaða á Suðurnesjum er það sem þarf
Þriðjudagur 19. febrúar 2008 kl. 09:21

Þverpólitísk samstaða á Suðurnesjum er það sem þarf

Álver í Helguvík er mikilvægt mál fyrir okkar svæði, á því er enginn vafi. Um þetta hef ég skrifað margoft og lýst yfir vilja mínum til að tryggja málinu framgang.

Ég hef farið yfir þetta mál ótal sinnum með núverandi formanni Framsóknarflokksins. Ég hef einnig farið yfir þetta margoft með Bjarna Harðarsyni, 2. þingmanni Framsóknar í Suðurkjördæmi. Þá hef tekið að mér að skipuleggja fundi (oftar en einu sinni) þessara manna með forsvarsmönnum Norðuráls til að hjálpa þeim að skilja betur mikilvægi verkefnisins.

Ég kom að því á sínum tíma að leiða saman forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hér á Suðurnesjum og þáverandi forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur, þá undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Þetta var fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2006. Við Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélagsins, fórum á fund Alfreðs og Guðmundar Þóroddssonar í Orkuveitu Reykjavíkur til að fara yfir hvernig væri hægt að vinna álveri í Helguvík framgang. Niðurstaðan var sú að forsvarsmenn launþegahreyfinganna sendu bréf til Orkuveitu Reykjavíkur og óskuðu eftir því að hún kæmi að orkuöflun fyrir nýtt álver í Helguvík. Niðurstaðan var núgiildandi loforð Orkuveitunnar um orku fyrir álver í Helguvík.

Það ætti að vera öllum ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur hingað til ekki verið sá stjórnmálaflokkur sem stendur í vegi fyrir nýju álveri í Helguvík. Ef eitthvað er þá hefur Flokkurinn komið með beinum hætti að framgangi verkefnisins, m.a. í Orkuveitu Reykjavíkur.

Það ætti einnig að vera ljóst fyrir alla að einungis forystumenn eins stjórnmálaflokks hafa lýst stuðningi við verkefnið að uppfylltum öllum skilyrðum, þ.e. Sjalfstæðisflokksins. Öllum er kunnugt um þau vandræði sem þetta mál veldur í Samfylkingunni. Við erum núna á lokasprettinum og nú þurfum við á öllu okkar að halda. Kannski er komin tími á að íbúar taki sig saman og sýni vilja sinn í verki og hefji undirskriftasöfnun ?

Eysteinn Jónsson
Bæjarfulltrúi fyrir A-lista í Reykjanesbæ, sameiginlegt framboð Framsóknar, Samfylkingar og Óháðra. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024