Þú skalt vera góð fyrirmynd
„Börn og unglingar eiga ekki auðvelt í dag, en hvers vegna er það svo? Eflaust er það vegna þess að við ætlumst til of mikils af þeim. Ekki eru það börnin sem eru óþroskuð, heldur eru það við hin fullorðnu sem þurfum að uppfylla ákveðnar skyldur í uppeldi og þroska barna. Andlegur og sálrænn þroski barna og ungmenna er mjög mikilvægur þáttur í öllu uppeldi. Mikilvægt er að búa þau sem best undir framtíðina. Foreldrum ber að senda þeim skýr skilaboð þannig að „nei“ í dag þýði ekki „já“ á morgun. Nái þau góðum árangri í daglegu lífi, til dæmis í samskiptum við jafnaldra og fullorðna eða málnotkun, eru þau sjálfkrafa hvött til þess að læra meira og mynda enn sterkari löngun til þess að vera góð í því sem þau taka að sér. Einnig ber kennurum að hugsa betur um velferð barna, sérstaklega þeirra sem eru „eftir á“. Þeir eiga að bjóða tækifæri sem efla sjálfstraust í gegnum námsárangur og brýna fyrir börnum að gefast ekki upp of snemma. Nemendur sem eiga í námserfiðleikum geta ekki fylgt hraða bekkjarins. Það hefur óneitanlega áhrif á sjálfsálit þeirra með þeim afleiðingum að þau upplifa sig útundan, einangruð og óverðskulduð. Þessi börn fá oft ekki tækifæri til að þroskast. Það er á ábyrgð kennarans og fölskyldunnar að sjá um að allir nemendur fái menntun við hæfi. Hlutverk hans er því einkar mikilvægt í hversdagslífi barna og fyrir framtíð þeirra“.
Þjóðfélagið okkar er ekki nógu fjölskylduvænt. Fullorðið fólk vill fá að njóta samvista við börnin sín eftir að venjulegum vinnudegi lýkur öðruvísi en að vera dauðuppgefið og útslitið og eiga svo auk allra annarra verka, sem bíða, eftir að hjálpa til við heimanám. Þarna þurfa skólarnir að koma inn með meiri þjónustu svo fjölskyldur geti notið samvista í frítímum sínum á uppbyggjandi og skemmtilegan hátt. Öruggt og ástríkt heimili og skilningsríkir foreldrar eru öllu ungviði mikilvæg. Þú skalt vera góð fyrirmynd.
Birgitta Jónsdóttir Klasen