Þú getur hjálpað til við að gera Reykjanesbæ enn betri
- Aðsend grein frá stjórn júdódeildar UMFN
Íþróttir styrkja stoðir samfélagsins
Íþróttir og hreyfing ættu að vera fastur liður í lífsmunstri hvers einstaklings. Ekki endilega til að æfa með keppni fyrir augum, heldur til að auka lífshamingju sína. Áríðandi er að börnum sé kennt strax á unga aldri að hreyfing sé holl, leikur, gleði og gaman. Íþróttaiðkun og starf innan íþróttahreyfingarinnar hefur forvarnargildi, kennir ungviðinu aga og einbeitingu og bætir andlega, félagslega og líkamlega heilsu.
Júdo svo miklu meira en íþrótt
Júdó er ekki bara bardagaíþrótt. Grunnhugsun júdósins er að bæta einstaklinginn og með því samfélagið í heild sinni. Júdó er í raun miklu meira en bara ástundun og nám í bardagatækni. Fyrir utan bætt líkamlegt atgervi og hreysti, sem iðkendur júdó ávinna sér, kynnast þeir einnig nýjum siðvenjum, lífstíl og fá nýja sýn á tilveruna. Júdó iðkendur læra að stjórna tilfinningum sínum, skapi og hvötum. Þeir læra um mikilvægi þrautseigju, virðingar, hollustu, aga og auðmýktar auk þess að þróa með sér aukinn siðferðislegan þroska. Þeir læra að yfirvinna hræðslu og sýna hugrekki undir álagi. Í gegnum keppni og daglegar æfingar læra þeir um réttmæti og sanngirni. Reynslan kennir þeim að kurteisi, hógværð og fleiri slík gildi borga sig og hjálpar þeim einnig í daglegu lífi. Júdó er þannig verkfæri til að lifa betra lífi. Með þessum grunngildum júdó hefur Júdódeild UMFN frá árinu 2011 beitt sér fyrir því að öll börn geti stundað íþróttir, óháð efnahagi foreldra. Æfingagjöld eru aldrei hærri en sem nemur hvatagreiðslum bæjarfélagsins og því má í reynd segja að ókeypis sé fyrir börn að æfa með Júdódeild UMFN. Á undanförnum árum hefur deildin blómstrað með samvinnu iðkenda, foreldra og þjálfara og fjárhagslegum stuðningi ýmissa aðila. Iðkendur eru nú á annað hundrað talsins (alltaf pláss fyrir fleiri) og þjálfarar orðnir átta.
Gerum góðan bæ betri
Til að tryggja áframhaldandi rekstur deildarinnar og til að hjálpa til við frekari uppbyggingu hennar hefur valgreiðsluseðill upp á 1000 krónur verið sendur á íbúa Reykjanesbæjar. Það er von okkar að sem flestir sjái sér fært að styrkja deildina því að með því styrkja Júdódeild UMFN ert þú að hjálpa okkur við að auka lífsgæði barna í Reykjanesbæ og búa til betra samfélag.
Með kærri þökk fyrir stuðninginn á undanförnum árum,
Stjórn Júdódeildar UMFN og yfirþjálfari Júdódeildar UMFN Guðmundur Stefán Gunnarsson