Þú fallega Ljósanótt!!
Anna Lóa Forseti bæjarstjórnar skrifar
Þegar ég sest niður og skrifa þessar línur er einungis rúm vika í Ljósanótt og ég finn hvernig eftirvæntingin magnast dag frá degi. Með tímanum hefur þetta orðið ein af mínum uppáhalds vikum á árinu enda svo margt sem gerir þessa daga að góðri upplifun fyrir líkama og sál.
Þessir dagar hafa mikla þýðingu fyrir bæinn okkar og það á svo marga vegu. Maður er manns gaman og það kemur berlega í ljós í tengslum við Ljósanótt. Fimmtudagskvöldið er eitt allsherjar ,,sammenkomst“ þar sem hefðin er hjá mörgum að kynna sér það sem hönnuðir, listamenn, frumkvöðlar ofl. hafa upp á að bjóða. Þetta kvöld er svona ,,húkkaraballið“ okkar, nema hvað við erum ekki að hugsa um að ,,húkka“ annað en skemmtilegt fólk og menningu. Já þetta er tíminn þar sem maður er að sýna sig og sjá aðra en það skiptir máli fyrir okkur öll að tilheyra og hafa vitni af lífi okkar. Listamenn myndu seint upplifa þann mikla sköpunarkraft sem er að baki listinni ef ekki væri fyrir vitnin sem bera afurðina augum og því fleiri sem eru komnir saman til að njóta því skemmtilegri stemning.
Á heildina litið er Ljósanótt risastór félagslegur og menningarlegur viðburður. Hvort sem það er í árgangagöngunni, á tónleikum, heima í súpu hjá tengdó eða með mörg þúsund manns að horfa á flugeldasýningu, þá erum við að upplifa menningu og það í félagsskap með öðrum.
Ljósanótt er líka mikilvæg hátíð fyrir ímynd Reykjanesbæjar þar sem hingað koma þúsundir manna enda nóg um að vera fyrir alla. Við getum verið stolt af því að bjóða upp á eina af flottustu fjölskylduhátíðum landsins og þeim fjölgar sem láta sig ekki vanta hér ár eftir ár.
Þetta er líka sá tími sem við bjóðum vinum og fjölskyldu heim og njótum þess að vera í kringum þá sem okkur þykir vænt um. Ég líkt og margir aðrir tek á móti gestum á Ljósanótt og fyllist stolti þegar fjölskylda og vinir lýsa ánægju og undrun yfir því sem í boði er. Ég hef þá trú að hátíðin takist svona vel því við erum öll meira eða minna þátttakendur á einn eða annan hátt – við leggjum öll eitthvað af mörkum til að gera þetta að þeim stóra viðburði sem raun ber vitni. Þrátt fyrir að sumir leggi meira á sig en aðrir þá má samt segja að við íbúarnir sköpum eftirvæntinguna, umgjörðina, stemninguna, sköpunarkraftinn og gleðina sem skiptir allt saman máli. Það er með þetta eins og annað, við þurfum að velja okkur viðhorf og vera ákveðin í því að njóta þess sem í boði er. Snýst ekki um að við séum sífellt að toppa okkur milli ára – snýst um að vera ákveðinn í því að þessa daga vel ég að hafa gaman og taka þátt. Snýst um hver ég verð í góðum félagsskap en ekki hvernig aðrir skemmta mér.
Kæri lesandi – ég vona svo sannarlega að þú njótir þeirra frábæru skemmtunar sem Ljósanótt er en mundu að þú getur líka lagt þitt af mörkum til að gera þessa hátíð enn betri. Veldu þér viðhorf og mundu að viðmiðin ræna okkur oft hamingjunni - þetta gengur svolítið út á að njóta og gefa í réttum hlutföllum.
Sjáumst hress og kát!
Anna Lóa
Forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar