Þú ert falleg - að innan sem utan!
Líkt og meirihluti íslensku þjóðarinnar er ég meðlimur á Fésbókinni og finnst gaman að nýta mér þessa tækni til að tengjast og fylgjast með. Ég hef áttað mig á að maður veit harla lítið ef maður er ekki tengdur þarna inn. Nú er sá tími ársins sem við verðum flest aðeins mýkri sem þýðir fallegar jólakveðjur og óskir um bjartari framtíð með blóm í haga. En alla jafna eru FB meðlimir duglegir að setja jákvæðar athugasemdir á síður sínar og annarra, gefa hrós, þakka fyrir liðnar stundir og margt fleira sem gefur lífinu lit.
Ég varð fyrir þannig reynslu í vikunni og hún verður mér eftirminnileg. Ég var að flakka á FB og fór inn á síðuna hjá einni góðri vinkonu en þar var hún með eftirfarandi status: Kæru vinir, þetta er fallegasta manneskjan sem ég hef fyrir hitt, svo ljúf og góð og falleg að innan sem utan. Á eftir þessari setningu kom svo linkur á síðu og viti menn, það var síðan mín. Ég var orðlaus, fannst henni virkilega svona mikið til mín koma og svo voru 12 manns (sem ég þekkti ekki neitt) búnir að líka við færsluna. Þar að auki voru nokkrar fallegar athugasemdir frá fólki og fannst mér pínu skrýtið að flestar gengu þær út á að þakka vinkonunni fyrir.
Mér fannst það merkilegt, fólk var að þakka henni fyrir að benda á hvað ég var falleg að innan sem utan! Ég hugsaði mikið um hvort ég ætti að skrifa þakklætisbréf til þessarar vinkonu minnar því mér þótti svo vænt um þetta en ákvað að bíða með það þangað til daginn eftir. Ég fór að sofa með þakklæti í hjarta og hugsaði hversu einlægt fólk væri nú orðið á þessum síðustu og verstu. Ég kíkti aftur inn á FB þegar ég vaknaði og sá að aðdáendum mínum hafði fjölgað mikið, fleiri voru búnir að líka við statusinn og ein hafði skrifað: ég fæ nú bara tár í augun!
Mér fannst þetta allt einstaklega yndislegt en var svolítið hissa á því að ég þekkti engan af þessum einstaklingum sem voru að lýsa ánægju sinni með þetta. Gat verið að það væru svo margir þarna úti sem fannst ég svona svakalega falleg, jafnt að innan sem utan, og táruðust jafnvel yfir því! Ja hérna hér, ég hef greinilega vanmetið mig! Ég var hugsi yfir þessu og þegar ég er í þannig ástandi þá hringi ég gjarnan í systur mína. Ég segi henni frá þessari reynslu minni og spyr hana í leiðinni hvernig hún mundi bregðast við, átti ég að senda þakkarbréf í innhólfið hjá vinkonu minni eða átti ég að svara statusnum á síðunni og þakka öllu þessu frábæra ókunnuga fólki, hlý orð í minn garð og lofa í leiðinni að ég ætlaði að reyna að standa mig sem þessi fallega manneskja áfram.
Stund sannleikans rann upp þegar systir segir þessi orð: Anna Lóa mín, ég held að þú sért aðeins að misskilja þetta. Auðvitað ertu falleg að innan sem utan en málið er að þetta er ein af þessum viðbótum á FB sem þýðir að þegar þú smellir á linkinn sem fylgdu þessum fallegu orðum kemur síðan ÞÍN upp, en gerir það sama hjá öllum öðrum. Þannig að ef ég fer inn á síðu vinkonu þinnar og smelli á þennan sama link þá birtist ég, litla systir þín, sem þessi fallega kona að innan sem utan ........allir sem smella á hann fara beint inn á síðuna sína (sem skýrir af hverju ég þekkti ekki þá sem líkaði svona stórkostlega við mig og þekktu mig samt ekki neitt). Sem sagt, vinkona mín var að segja öllum vinum sínum að þeir væru fallegir að innan sem utan, ekki bara mér!
Á einu augabragði fannst mér ég hvorki falleg að innan sem utan, bara kjáni. Svo kom hláturinn, og honum fylgdu tárin og endorfínflæðið náði hæstu hæðum. Systir mín hafði sjálf lent í svipuðu og kannaðist því við þetta og hló með mér. Eftir á að hyggja var þetta frábært og mér finnst tilganginum náð – í 12 tíma var ég á bleiku skýi og fórnarlamb sjálfhverfu á hæsta stigi, en svo tók við heilsusamlegt hláturskast og vellíðan og ég er ekki frá því að mér finnist ég pínulítið fallegri, að innan sem utan. Mér finnst Fésbókin frábær.
Rún vikunnar er Íss:
Vertu þolinmóður, þetta er tímabil aðgerðarleysis og nauðsynlegur undanfari endurfæðingar. Gefðu eftir og vertu rólegur því nýtt fræ er þegar til staðar í hýði hins gamla, fræ nýrra möguleika, fræ hins góða.
Þangað til næst - gangi ykkur vel
Anna Lóa