Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þú, já þú!
Fimmtudagur 13. janúar 2011 kl. 09:36

Þú, já þú!

Gleðilegt nýtt ár og vonandi fyrir flesta gleðilegt nýtt upphaf. Í upphafi hvers árs er gott að líta yfir farinn veg og meta hvort við höfum gengið til góðs og hvort það væri skynsamlegt að taka nýja stefnu í kjölfarið.

Áramót eru tímamót og þá er ekki óalgengt að fólki strengi áramótaheit. Heitin eru mismunandi eftir því hver á í hlut eða allt frá því að hætta að reykja til að verða betri maður. Margir myndu segja að ég ætti að strengja áramótaheit sem innibæri að missa nokkur kíló, já allt í lagi mjög mörg kíló. Ég hef hins vegar strengt áramótaheit um að verða betri sjálfboðaliði. Rætt hefur verið um nýtt upphaf hér á landi, það er talað um að samfélagið þurfi nýtt upphaf, hverfi alfarið frá græðgisvæðingunni og fari í umhyggjuvæðingu fyrir náunganum. Sem sjálfboðaliði ertu að hugsa um hag annarra.


Þú (traustur vinur) getur gert kraftaverk, eins og segir í vinsælum dægurlagatexta, með því að gerast sjálfboðaliði. Markmiðið með því að sem flestir gerist sjálfboðaliðar er m.a. að virkja sem flesta til samfélagslegrar þátttöku. Það er eitthvað svo frábært við það að allir geti gerst sjálfboðaliðar, það er bara að finna sitt félag og sinn félagsskap.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Með því að gerast sjálfboðaliði þá ert þú að gera samfélagið okkar öflugara. Það eru mýmörg tækifæri hér á Suðurnesjum að gerast sjálfboðaliði. Ég er viss um að eftir aðeins stutta umhugsun þá veitist þér það létt verk að finna þína sjálfboðaliðs-hillu, þar sem þú getur dafnað og þroskast. Ef þér reynist það erfitt þá getur þú hringt í mig og vonandi get ég aðstoðað þig í að finna góðan félagsskap til að vinna með, það kostar okkur lítið annað en að við gefum örlítið af tíma okkar.

Ég fann mína hillu í því að gerast sjálfboðaliði (messuþjónn) í Keflavíkurkirkju. Það sem gerist þegar þú byrjar að vinna sem sjálfboðaliði þá ferðu fljótlega að átta þig á því hvað þú færð framlag þitt margfalt til baka. Það eru svo mikil sannindi í því að betra er að gefa en þiggja. Þú kynnist svo mörgu og mörgum, allt nýtt og spennandi og í leiðinni lærir maður fjölmargt nýtt. Ég hef til dæmis kynnst frábæru fólki í kirkjunni okkar, bæði öðrum sjálfboðaliðum og svo frábærum og dugmiklum prestum safnaðarins sem er umhugað um velferð samfélagsins okkar.


Það má líka segja um alla þá aðila sem stjórna (þjóna) í þessum bæ, allir vilja veg samfélagsins sem mestan. Við gerum samfélagið okkar betra með því að gerast þjónn þess í einhverjum félagsskap. Það er líka brýnt að við skoðum hvað það er sem raunverulega skiptir máli. Er það ekki velferð fólksins í samfélaginu okkar. Ef svarið er já þá getum við gert kraftaverk með því að bjóðast til að gerast sjálfboðaliðar hjá stofnunum eða félagasamtökum sem eru starfandi í nærsamfélaginu okkar. Möguleikarnir og tækifærin eru endalaus í þeim efnum. Þú getur hringt í Rauða krossinn, björgunarsveitirnar, íþróttafélögin, kirkjuna þína og hvar sem fólk vinnur í samfélagi að góðum málefnum.


Ég vil enda á stílfærðri tilvitnun í frægan forseta og segja „Kæri samborgari, spurðu ekki hvað samfélagið getur gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir samfélagið þitt“.



Gunnar Halldór Gunnarsson

Sjálfboðaliði og verkefnastjóri Virkjun mannauðs á Reykjanesi,
[email protected]