Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þrýstingur á ríkið og ábyrg fjármálastjórnun lykilatriði
Föstudagur 11. maí 2018 kl. 11:08

Þrýstingur á ríkið og ábyrg fjármálastjórnun lykilatriði

Óháð framboð Lista Grindvíkinga býður í þriðja sinn fram til sveitarstjórnarkosninga þann 26. maí næstkomandi. Tilgangur okkar hefur alltaf verið sá að vinna þvert á flokka, vinna faglega og heiðarlega og hafa alltaf hag íbúana í forgrunni. Við viljum skýra framtíðarsýn sem fylgt verður eftir með ábyrgri stefnu.
 
Áherslur okkar í komandi kosningum eru fjölmargar. Helst ber þó að nefna að ábyrg fjármálastjórnun er lykillinn að öllu því sem á eftir kemur. Dagvistunarmál ásamt leik- og grunnskólamálum eru áherslumál okkar og líklega annarra flokka líka þar sem farið er að þrengja að. Því skiptir máli að finna góða lausn en um leið hagkvæma.
 
Húsnæðismál verða líka ofarlega á baugi hjá okkur þar sem leiguíbúðir eru af skornum skammti og ekki á færi allra að kaupa eða byggja. Þessu þarf að bregðast við. Málefni eldri íbúa eru okkur hugleikin. Þjónusta við þennan hóp hefur verið góð. Það þrengir engu að síður að húsakosti þeirra og munum við hafa lausnir á því í okkar stefnu. Við viljum bjóða upp á heilsueflandi heimsóknir og endurhæfingu heima fyrir.
 
Bæjarstjórn Grindavíkur hefur þurft að vera í miklum samskiptum við ríkið vegna Grindavíkurvegar. Þau samskipti munu halda áfram því ekki þarf aðeins að þrýsta á að Grindavíkurvegur verið lagaður og kláraður, heldur þarf líka að þrýsta á lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði. Dagvistunarvandinn er landlægur og við honum þarf ríkið að bregðast í samvinnu við sveitarstjórnarstigið.
 
Öryggismálin skipta líka sköpum. Við í Lista Grindvíkinga munum leggja áherslu á eflingu heilbrigðisþjónustunnar, bæði með aukinni þjónustu heilsugæslunnar auk fjölgun sjúkrabíla í bæjarfélaginu. Þetta þarf að gerast með aðkomu ríkisins og munum við þrýsta á þessar umbætur. Það er ekki nóg að ræða þetta í stefnuskrá rétt fyrir kosningar. Þaðþarf að fylgja þessu eftir með mikilli vinnu og samskiptum við hið opinbera.
 
Á þessu kjörtímabili hefur Listi Grindvíkinga lagt sig fram í vinnu sinni í þágu íbúana og í samskiptum við hið opinbera. Uppskeran er að farið verður í fyrsta áfanga á Grindavíkurvegi í haust. Við erum tilbúin í áframhaldandi vinnu. Á komandi kjörtímabili skiptir máli að kjörnir fulltrúar séu tilbúnir að leggja sig fram í samtal og þrýsting á stjórnvöld. Við erum tilbúin í þá vinnu.
 
Til þess þurfum við ykkar stuðning!

X G 
 
Kristín María Birgisdóttir
1. Sæti á Lista Grindvíkinga
Vilhjálmur Ragnar Kristjánsson
2. Sæti á Lista Grindvíkinga
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024