Þrjú ár af nauðsynlegum ákvörðunum og mikilvægum breytingum á HSS
Hvernig ný stefnumótun HSS tekur á viðvarandi mönnunar- og þjónustuvanda
Um síðustu mánaðarmót eru þrjú ár síðan ég tók til starfa á HSS og af því tilefni er rétt að horfa um öxl og líta til þess sem er framundan.
Þegar ég tók til starfa varð mér ljóst að það væri á brattann að sækja og nauðsynlegt væri að taka af skarið með erfiðum ákvörðunum ef takast ætti að rjúfa þann vítahring sem stofnunin hafði verið í um árabil. Allur kraftur var því settur í breytingastjórnun þar sem brýnustu verkefnin voru tekin fyrir fyrst. Flest lúta þau að því að vinna bug á þeim alvarlega vanda sem mönnunarvandinn er enda er hann helsta orsök þjónustuvanda stofnunarinnar.
Vítahringur stofnunarinnar rofinn
Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikið viðbótarálag heimsfaraldurinn hefur verið á starfsfólk HSS síðustu tvö ár. Ásamt því að mæta þeim áskorunum, hefur starfsfólk HSS undanfarin misseri einnig verið á hlaupum við að framkvæma nauðsynlegustu breytingarnar og allur forgangur hefur verið á að bæta þjónustuna, bæði til skemmri og lengri tíma. Af þeim sökum hefur ekki tekist að miðla upplýsingum frá okkur eins og æskilegt væri. Þegar helstu breytingarnar eru loks að verða ljósar getum við í auknum mæli upplýst samfélagið um þá miklu vinnu sem á sér stað hjá okkur. Leiðarljósið við þessa vinnu er starfsáætlun HSS 2021-2023 og við framkvæmdina höfum við m.a. óskað eftir stuðningi samfélagsins til að koma stofnuninni á þann stað sem samfélagið á skilið.
Hægt er að flokka brýnustu málaflokka síðustu þriggja ára í þrennt; starfsaðstöðu, mannauð og fjármögnun. Þetta eru liðirnir sem við höfum tekið föstum tökum en megináherslan hefur til þessa helst verið á húsnæðismálunum. Ástæðan er einfaldlega sú að ekki verður unnt að fjölga starfsfólki á HSS ef starfsaðstaða fyrir það er ekki fyrir hendi. Þá skipta gæði starfsaðstöðunnar töluverðu máli við að laða að fagfólk. Hverjum myndi detta í hug að bjóða meistarakokkum upp á að vinna í úrsérgengnu eldhúsi, svo dæmi sé tekið? Góðar starfsaðstæður eru því hluti af lausn þess mönnunarvanda sem við höfum glímt við.
Hvað hefur verið gert á síðustu þremur árum
Þær breytingar sem við höfum verið að vinna markvisst að eru byggðar á þeim grunni sem lagður var sameiginlega af starfsfólki HSS í stefnumótunarvinnu árið 2020, sem sjá má á nýrri vefsíðu stofnunarinnar. Mikið ákall var á meðal starfsfólks um allsherjar uppbyggingu á innviðum og þjónustu HSS. Árangurinn er farinn að líta dagsins ljós og smám saman munu skjólstæðingar stofnunarinnar einnig upplifa þessar jákvæðu breytingar. Meðal þeirra breytinga sem munu skipta samfélagið miklu máli má nefna eftirfarandi:
- HSS hefur farið í miklar skipulagsbreytingar. Deildir hafa verið sameinaðar og efldar og millistjórnendum fækkað. Stokkað var upp í framkvæmdastjórn og staða framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrar lögð niður og ný staða framkvæmdastjóra mannauðs- og þjónustu sett upp í takt við nýjar áherslur um bætta þjónustu. Gæðamál hafa verið efld með þróunar- og gæðastjóra sem heyrir beint undir forstjóra. Sjúkraflutningar á öllum Suðurnesjum hafa verið sameinaðir í þágu betra öryggis, meiri fagmennsku, betri starfsaðstæðna og þjálfunar.
- HSS hefur nú fengið fullfjármagnaða ríflega 1600 fermetra sérhannaða heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík sem mun bjóða upp á nútímalega aðstöðu fyrir skjólstæðinga og starfsfólk. Til samanburðar er núverandi húsnæði heilsugæslunnar í Reykjanesbæ aðeins rúmir 700 fermetrar. Sökum þrengsla hefur okkur ekki verið unnt að fjölga starfsfólki.
- Ný röntgendeild opnar innan skamms með nýju röntgentæki og fjármagn fyrir nýju sneiðmyndatæki er tryggt og komið í útboðsferli. Þessi bætta aðstaða mun styðja við nýja og nútímalega slysa- og bráðamóttöku sem verður um þrefalt stærri en sú sem fyrir er. Vonir eru bundnar við að framkvæmdir við hana hefjist á næstu vikum og að hún muni taka til starfa fyrir árslok. Þessar miklu breytingar gera okkur kleift að efla þjónustuna í heimabyggð og fækka þeim tilvikum að senda þurfi skjólstæðinga á Landspítala í Fossvogi. Breytingar sem þessar bæta ekki einungis þjónustuna heldur draga þær einnig úr álagi á Landspítala og lækka heildarkostnað í heilbrigðiskerfinu.
- Ný sjúkradeild með 19 sjúkrarýmum og 8 dagdeildarrýmum mun taka til starfa á síðari helmingi ársins. Tilkoma nýju sjúkradeildarinnar mun gera okkur kleift að veita aukna sjúkrahússþjónustu á svæðinu sem og að auka viðbragðsgetu sjúkrahússþjónustunnar á SV-horninu ef áföll dynja yfir. Reynslan af heimsfaraldrinum kennir okkur að skortur á slíkum sveigjanleika getur valdið hvoru tveggja samfélags- og fjárhagslegu tjóni.
- Enn fleiri góð verk eru í bígerð á þessu ári og því næsta. Til þessa hefur HSS haft fjögur dagdeildarrými opin tvo daga í viku. Með tilkomu nýju sjúkradeildarinnar verður okkur kleift að hafa átta dagdeildarrými opin fimm daga í viku.
- Starfsfólk vinnur stöðugt að því að bæta þjónustuna til skemmri tíma litið. Forgangsröðun skjólstæðinga hefur verið innleidd og er opin frá klukkan 8-20 alla virka daga. Tilgangur hennar er að beina erindum á rétta staði og veita einfaldari erindum úrlausn á heilsugæslunni sem annars hefðu farið á slysa- og bráðamóttöku. Áhersla hefur verið lögð á heilsueflandi móttöku í forvarnarskyni. Búið er að koma endurmenntun og fræðslumálum fagfólks í mjög gott horf. Samskonar vinna á sér stað í gæðamálum en þar hefur t.d. verið innleitt rafrænt lyfjaumsjónarkerfi og rafrænt lyfjafyrirmælakerfi og innleiðing á rafrænu lyfjagjafakerfi er hafin. Atvikaskráning hefur verið efld með rafrænni skráningu og eftirfylgni á umbótum í kjölfar atvika.
- Við erum að lyfta grettistaki í geðheilbrigðisþjónustu með fjölgun stöðugilda og eflingu geðheilbrigðisteymis og fjarþjónustu. Undanfarin misseri höfum við glímt við mönnunarvanda í geðheilsuteyminu en nú er útlit fyrir að okkur sé að takast að snúa þeirri þróun við. Þau tímamót eiga sér nú stað að sett hefur verið á laggirnar ný staða yfirlæknis við geðheilsuteymi HSS og nýverið var gengið frá ráðningu geðlæknis í þá stöðu. Þá fáum við einnig fljótlega í teymið félagsráðgjafa og iðjuþjálfa, ásamt fleiri sálfræðingum í barna- og fullorðinsteymi. Heimahjúkrun hefur verið efld og ráðnir hafa verið fimm teymisstjórar en þessi aukna teymisáhersla mun gera okkur kleift að auka samvinnu við sveitarfélögin og þar með samfellu í þjónustunni. Tækjabúnaður er í endurnýjun. HSS hefur verið efld sem kennslustofnun með því að fjölga sérnámslæknum, sérnámshjúkrunarfræðingum, ásamt nemum í læknis- og hjúkrunarfræði og auka samvinnu við heilbrigðisdeildir háskólanna en vonir standa til að það muni skila HSS betra aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki til framtíðar.
- Framundan er töluverð vinna við að klára breytingar á húsnæði HSS í Reykjanesbæ. Við mótum tillögur að framtíðarskipan starfsstöðva HSS í Grindavík. Við viljum breytingar á hjúkrunarheimilinu í Víðihlíð sem uppfyllir ekki nútíma kröfur. Við stefnum á að opna nýtt heilsugæslusel í Vogum í samvinnu við sveitarfélagið. Þá bindum við vonir við að ný heilsugæsla í Suðurnesjabæ verði fjármögnuð. Við ætlum og munum beita okkur fyrir því að þetta komist í framkvæmd líkt og það sem við höfum þegar klárað.
HSS uppsker árangur af nauðsynlegum breytingum
Hvaða þýðingu munu þessar breytingar hafa fyrir samfélagið? Bætt aðstaða fyrir starfsfólk og skjólstæðinga gerir HSS ekki einungis kleift að fjölga starfsfólki heldur gerir hún stofnunina að meira aðlaðandi vinnustað. Þannig rjúfum við vítahringinn.
Afar miklir hagsmunir eru í húfi því HSS þjónustar hátt í 30 þúsund íbúa eða um 8% þjóðarinnar. Vissulega þarf að auka fjárveitingar til HSS ef stofnunin á að veita þá þjónustu í heimabyggð en á móti sparast kostnaður annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Sem dæmi má nefna að þeir skjólstæðingar sem fá hagkvæmt úrræði á borð við heimahjúkrun liggja ekki inni á sjúkrahúsi á sama tíma, sem er dýrasta úrræðið.
Nú þegar betur horfir við húsnæðismálum HSS verður næsta baráttumál að tryggja nægilegar fjárveitingar til stofnunarinnar, þannig að hljóð þeirra fari saman við mynd laga um heilbrigðisþjónustu og Heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Takist það, munu sparast umtalsverðir fjármunir við sjúkraflutninga til Landspítala, með tilheyrandi kostnaðarauka þar og yfirflæði.
Eftir það þrekvirki sem starfsfólk HSS hefur unnið undanfarin misseri eygir það loksins bjartari framtíð. Samheldni þess og þrek hefur orðið til þess að öll þessi verkefni hafa náð fram að ganga, þrátt fyrir verulega undirmönnun. Við þessar aðstæður hefur starfsfólk HSS jafnvel megnað að hlaupa undir bagga með Landspítala á tímum heimsfaraldursins. Það að starfsfólk stofnunarinnar hafi náð að sinna þessu við það álag sem faraldurinn hefur haft, stappar nærri kraftaverki. Á þessum mikla krafti viljum við byggja heilbrigðisþjónustuna á Suðurnesjum til framtíðar.
Fjöregg heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum er ekki aðeins í höndum starfsfólksins sem núna vinnur að umbótaverkefnum í þágu skjólstæðinga HSS heldur líka í höndum samfélagsins. Með stuðningi við frekari aðgerðir okkar á HSS getum við nýtt það tækifæri til uppbyggingar á innviðum HSS og þjónustu stofnunarinnar í heimabyggð. Það mun laða að fleira starfsfólk og þannig náum við í sameiningu að koma þjónustunni á Suðurnesjum á þann stað sem samfélagið á skilið.
Með vinsemd og virðingu,
Markús Ingólfur Eiríksson
forstjóri HSS