Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þrítugasta og áttunda starfsár kvennakórsins að ganga í garð
Þriðjudagur 12. september 2006 kl. 15:08

Þrítugasta og áttunda starfsár kvennakórsins að ganga í garð

Fimmtudagskvöldið 7. september hélt Kvennakór Suðurnesja skemmtikvöld þar sem kórastarf vetrarins var kynnt fyrir gestum. Á skemmtunina sem kalla mætti opna æfingu mættu um eitthundrað konur og nutu kvöldsins saman. Boðið var upp á veitingar og skemmtiatriði þar sem Dres Divos Les Mobiles sungu m.a. nokkra ítalska slagara og kórinn tók nokkur sýnishorn af því sem var á dagskrá síðasta söngárs. 

Nokkrar konur, núverandi og fyrrverandi kórfélagar, deildu reynslu sinni af kórastarfinu með viðstöddum og bar þar hæst að reglulegur söngur gefur lífinu lit, er endurnærandi og sálarbætandi.

Kvennakór Suðurnesja, sem er elsti starfandi kvennakór landsins, er nú að hefja sitt þrítugasta og áttunda starfsár sem lofar góðu. Áætlað er m.a. að fara í ferðalag til Ítalíu haustið 2007, halda skemmtilega tónleika og fara í kórferðir innanlands að auki. Kórinn er með æfingar á miðvikudögum kl. 19.30 og raddæfingar á mánudögum kl. 20.00, en hver rödd mætir fjórða hvern mánudag og er því í fríi hina mánudagana.

Kórastarf er gefandi og skemmtilegt og hæfir öllum konum, jafnt ungum og þeim sem eldri eru. Ekki þarf söngpróf til þess að komast í kórinn, allar konur sem langar að syngja og hafa gaman af eru velkomnar. Við tökum vel á móti ykkur og erum tilbúnar að leiða ykkur inn í skemmtilegt starf með okkur. Það er um að gera að prufa og umfram allt að prufa aftur því allt kemur þetta með tímanum, bæði laglínan og textinn.

Kórinn nýtur að þessu sinni, líkt og á síðasta starfsári, dyggrar stjórnunar Dagnýjar Jónsdóttur og undirleiks Geirþrúðar Bogadóttur.

Að lokum viljum við í Kvennakór Suðurnesja þakka þeim konum sem heimsóttu okkur á þessu skemmtilega kvöldi og öllum þeim sem stutt hafa við bakið á kórastarfinu undanfarin ár. 

Fyrir hönd Kvennakórs Suðurnesja
Bergný Jóna

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024