Þóra sækist eftir 2.-3. sæti Samfylkingar
Þóra Þórarinsdóttir, fyrrum ritstjóri, gefur kost á sér í forystusveit Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í komandi prófkjöri 7. mars og sækist eftir 2.-3ja sæti á listanum
Þóra Þórarinsdóttir fyrrverandi ritstjóri fréttablaðsins Gluggans á Suðurlandi hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2.-3ja sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Í fréttatilkynningu frá Þóru segir:
Á Íslandi hafa verið umbrotatímar. Framundan er tími mikilvægrar uppbyggingar sem sinna þarf að af vandvirkni, krafti og auðmýkt. Fjölmargir einstaklingar víðs vegar að úr kjördæminu hafa að undanförnu skorað á mig að bjóða fram krafta mína til þeirra verka og hef ég ákveðið að verða við þeirri áskorun.
Íslendingar gera kröfur um breytingar. Í ljósi undangenginna atburða eru það sanngjarnar kröfur. Mörg þeirra lífsgilda sem um langan tíma voru hér í heiðri höfð og lúta að samhug, jöfnuði og mannkærleika, viku um stund. Þeirra þarf að leita að nýju. Ég er þess fullviss að í sameiningu getum við endurvakið þessi gildi og breytt áherslum. Íslendingar verða að lagfæra það sem aflaga fór. Ég vil leggja mitt að mörkum til að ná fram breytingum og endurreisa íslenskar fjölskyldur, athafna- og efnahagslíf.
Ég hef um langt skeið verið óflokksbundin þó að lífsgildi mín hafi verið hverjum manni ljós.
Ég hef víðtæka þekkingu á íslenskum þjóðmálum enda hafa þau meira og minna verið starfsvettvangur minn umliðinn áratug.
Ég hef undanfarin 5 ár verið eigandi og ritstjóri fríblaðsins Gluggans, vikublaðs sem dreift var heim til allra Sunnlendinga. Það er nú hætt að koma út. Þar á undan var ég fréttaritari Ríkisútvarpsins á Suðurlandi í 5 ár og sá þá einnig um dagskrárgerð.
Að menntaskólanámi loknu lauk ég búfræðingsprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri. Því næst lauk ég BEd prófi frá Kennaraháskóla Íslands og starfaði við kennslu í unglingadeildum grunnskóla í ein 14 ár. Þá hef ég stundað nám í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands.
Ég er fædd og uppalin í Reykjavík en flutti ásamt eiginmanni og börnum á Suðurland árið 1992 og við búum á Selfossi.
Ég tel áríðandi að það fólk sem velst til starfa fyrir þjóðina hafi sem víðtækasta reynslu úr þjóðlífinu og skýra framtíðarsýn. Við þurfum að laða fram það besta fram í fari einstaklinga, mannlífs og þjóðar. Ég tel mig hafa reynslu sem nýtast mun Íslendingum og sækist því eftir 2.- 3ja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar hinn 7. mars.