Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

 Þjónusta Virk á Suðurnesjum
Laugardagur 21. janúar 2012 kl. 22:02

Þjónusta Virk á Suðurnesjum


Virk starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun sem öll helstu samtök stéttarfélaga og atvinnurekenda á vinnumarkaði eiga aðild að. Samið var um stofnun Virk í kjarasamningum á árinu 2008. Á vegum Virk og í samvinnu við stéttarfélög um allt land eru starfandi sérhæfðir ráðgjafar sem bjóða upp á þjónustu á sviði starfsendurhæfingar.
Það eru tveir ráðgjafar starfandi á Reykjanesi þau eru Guðni Erlendsson og Elfa Hrund Guttormsdóttir. Þau eru með skrifstofu á Krossmóa 4 á fjórðu hæð í Reykjanesbæ.
Fleiri sérfræðingar koma einnig að starfinu og hefur Virk gert samninga við fjölda fagaðila um viðeigandi þjónustu fyrir einstaklinga með skerta vinnugetu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hlutverk og stefna VIRK

Hlutverk VIRK er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku. Það er gert með ráðgjöf, fjölbreyttum úrræðum og sérhæfðri starfsendurhæfingu.

Stefna VIRK er meðal annars að skipuleggja og fjármagna ráðgjöf og þjónustu fyrir starfsmenn sem veikjast til lengri tíma eða slasast þannig að vinnugeta þeirra skerðist. Sérstök áhersla er lögð á að koma snemma að málum í samstarfi við atvinnurekendur, sjúkrasjóði stéttarfélaga og heilbrigðiskerfið


Þjónusta Virk
Öll þjónusta sem veitt er af hálfu ráðgjafa VIRK hefur það að markmiði að auka starfsgetu einstaklinga og stefna að því að þeir fari aftur til vinnu. Um er að ræða fjölbreytta þjónustu sem er þeim að kostnaðarlausu. Hægt er að skipta þessari þjónustu í þrjá flokka:

1. Aðstoð ráðgjafa
Ráðgjafi aðstoðar einstaklinginn meðal annars við að efla færni sína og vinnugetu út frá heilsufarslegum og félagslegum þáttum og í samvinnu við sérfræðinga ef þörf er á. Um er að ræða ráðgjöf og hvatningu sem tekur mið af aðstæðum og þörfum hvers og eins.
Sérstök áhersla er lögð á góða tengingu við vinnustað og atvinnulífið til að auka líkur á farsælli endurkomu til vinnu.

2. Aðstoð sérfræðinga
Ef þörf er á aðkomu fleiri sérfræðinga við að meta starfsgetu og möguleika á starfsendurhæfingu þá eru þeir kallaðir til eftir þörfum. Um er að ræða sérfræðinga eins og sálfræðinga, félagsráðgjafa, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, lækna, náms- og starfsráðgjafa og fleiri.

3. Ýmis úrræði í starfsendurhæfingu
Dæmi um þjónustu sem getur eflt starfsgetu eru meðal annars meðferðarviðtöl við sálfræðing, fjármálanámskeið, námskeið eða önnur aðstoð til sjálfsstyrkingar, vinnuprófanir, líkamsrækt með stuðningi sérfræðinga, sjúkraþjálfun, næringarráðgjöf , ráðgjöf til heilsueflingar og námskeið til að auka möguleika á vinnumarkaði.


Árangur í starfsendurhæfingu

Það má líta á starfsendurhæfingu sem nokkurs konar brú á milli heilbrigðiskerfis og vinnumarkaðar – brú sem tryggir og byggir upp samvinnu, skilning og þekkingu til að endurkoma til vinnu verði sem farsælust og árangursríkust. Til að slíkt sé mögulegt þarf að koma til samvinna margra aðila eins og viðkomandi einstaklings, heimilislæknis, atvinnurekanda og ráðgjafa í starfsendurhæfingu.

Rannsóknir og reynsla bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt fram á að til að tryggja varanlegan árangur í starfsendurhæfingu þá skiptir öllu máli að:

1. Koma snemma að málum og bjóða ráðgjöf á sviði starfsendurhæfingar um leið og fyrirséð er að starfsmenn verði fjarverandi vegna heilsubrests í lengri tíma.

2. Vinna í nánu samstarfi við atvinnulífið. Gæta þess að einstaklingar missi ekki vinnusamband sitt vegna veikinda eða slysa og stuðla að farsælli endurkomu til vinnu eftir langtíma fjarvistir.

Ráðgjafar VIRK á landsvísu höfðu veitt 2100 einstaklingum ráðgjöf og þjónustu frá stofnun VIRK og um mitt árið 2011. Af þessum 2100 einstaklingum hafa 600 lokið þjónustu og stærstur hluti þeirra hefur náð fullri vinnufærni og eru þátttakendur á vinnumarkaði í dag. Þessi þjónusta hefur eingöngu verið fjármögnuð af atvinnulífinu og hefur hún skilað miklum árangri bæði fyrir þá sem hennar njóta og fyrir samfélagið í heild sinni. Það er áhugavert að að skoða þessa miklu uppbyggingu í þjónustu á sviði starfsendurhæfingar í samhengi við þá staðreynd að dregið hefur verið úr nýgengi örorku bæði hjá Tryggingastofnun ríkisins og hjá mörgum lífeyrissjóðum.

Tryggingastofnun vísar mörgum einstaklingum til ráðgjafa VIRK. Ráðgjafar VIRK hafa haft umsjón með um 400 endurhæfingaráætlunum sem sérstaklega eru gerðar samkvæmt þeim kröfum sem TR gerir vegna greiðslu endurhæfingarlífeyris. Vinnuframlag ráðgjafa við gerð endurhæfingaráætlana nemur nokkrum þúsundum klukkutíma á undanförnum tveimur árum. Við þessa vinnu bætist svo vinna annarra sérfræðinga og endurhæfingaraðila um allt land. Þessi þjónusta er unnin og fjármögnuð af VIRK – starfsendurhæfingarsjóði.

Hægt er að fá upplýsingar um þjónustuna á heimasíðu VIRK www.virk.is

Elfa Hrund Guttormsdóttir og Guðni Erlendsson
ráðgjafar hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga á Reykjanesi