Aðsent

Þjónar lýðræðisins
Föstudagur 12. október 2018 kl. 06:00

Þjónar lýðræðisins

Tveir þingmenn birtust á mynd á samfélagsmiðli hjá þeim þriðja. Kjördæmavika. Allir að vinna og ferðast saman í bílaleigubíl. Gaman.  Myndin fín og veitti ágætis innsæi í samvinnu þingmanna. Á myndinni var líka laumufarþegi. Radarvari. Blaðamaður einn í Reykjavík hafði samband við þingmennina vegna laumufarþegans:

Þingmaður 1 (ökumaður): Ég hef bara ekkert um þetta að segja. Þetta er bara tæki sem ég er með í bílnum. Þarf ekki á því að halda. Ég er öruggur og heiðarlegur bílstjóri.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þingmaður 2 (ráðherra): Ég veit ekkert um það.

Þingmaður 3 (ljósmyndarinn): Ef þetta var radarvari, þá heyrðist ekkert í honum. Ég var bara farþegi.

Ósannsöglisskóli Alþingis hlýtur að vera rekinn í kjallara húss á Austurvelli án þess að skattgreiðendur viti af því. Að enginn þremenninganna hafi getað sagt samviskusamlega að þetta væri radarvari og hann væri notaður til þess að fá viðvaranir um radarmælingar lögreglu eru mikil vonbrigði. Viðbrögðin veita ákveðna innsýn í samstarf þingmanna þvert á flokka. Sannleikurinn er fyrstur til að víkja jafnvel þótt hann liggi í augum uppi.

Annar þingmaður sem ekki er vitað til að hafi verið farþegi í bílnum hefur ekki setið alveg verklaus. Hann hefur lagt fram frumvarp á Alþingi með þremur flokksbræðrum sínum um lagabreytingar á starfsemi Isavia. Frumvarpið gengur út á það að Isavia hætti rekstri Fríhafnarinnar en í staðinn verði gólfplássið leigt út til einkaaðila. Að sjálfsögðu í nafni samkeppni. Í sjálfu sér eitthvað sem alveg má ræða en hvernig ætlar þingmaðurinn að svara þessu:

Rétt um 200 Suðurnesjamenn starfa í Fríhöfninni og um 50 til viðbótar við sumarafleysingar. Þá eru ótaldir starfsmenn sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Fái lagafrumvarpið brautargengi á Alþingi eru öll þessi störf í uppnámi. Er einhver trygging fyrir því ef Fríhöfnin lokar að allir starfsmenn hennar fái vinnu hjá nýjum aðilum sem starfa í einkarekstri? Samkeppni fylgir hagræðing, er það ekki?

Ekki hef ég orðið var við neina umræðu um þetta frumvarp á Suðurnesjum. Tugir starfa eru í óvissu fái frumvarpið brautargengi. Hvar í kosningaloforðapakkanum var þetta? Kjósið mig og ég lofa ásamt félögum mínum að fækka störfum á Suðurnejsum. Hver kaus það?

Hvar eru sveitarstjórnarmennirnir? Þar er t.a.m. formaður verkalýðsfélags sem á fjölda umbjóðenda sem starfa í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Er svona brjálað að gera að 200 störf í skipta engu máli? Eða á Fríhafnarstarfsfólkið bara að sækja um í Kísilverinu þegar starfsemi hefst þar á ný?

Þetta eru þjónar lýðræðisins sem kjósendur á Suðurnesjum greiddu atkvæði í síðustu kosningum. Koma úr hinum ýmsu flokkum. Þiggja rífleg laun  úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda.

Þvílíkur brandari.

Margeir Vilhjálmsson