Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þjóðlegt íhald og áræðni í atvinnumálum
Þriðjudagur 15. október 2013 kl. 09:03

Þjóðlegt íhald og áræðni í atvinnumálum

Ég er þeirrar skoðunar að atvinnulífinu vanti súrefni. Mín upplifun er að þróttur þess dvíni þessa dagana þegar það ætti að vera á uppleið. Vissulega eru margir hlutir að gerast, atvinnuleysi minnkar en heilt yfir er doði á mörgum sviðum. Iðfyrirtæki í framleiðslu og þjónustu merkja minni eftirspurn á landsbyggðinni og eina lífið í byggingariðnaðinum virðist vera í 101 Reykjavík. Þar er aftur byrjað að blása í blöðrur þegar við ættum að skapa útflutningsverðmæti fyrir hagvöxt og uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Ég velt því fyrir mér hvort ríkisstjórnin og við sem stöndum að meirihlutanum í þinginu séum að standa okkur. Ég held að þrátt fyrir mörg góð áratök sé hollt að viðurkenna að við getum gert betur og að það liggur á á að gera betur!  Ég vakna á hverjum morgni og velti fyrir mér hvað ég geti gert til að ástandið lagist. Fundahöld og spjall er ágætt en þar gerist ekkert. Við verðum að láta verkin tala. Erum við að gera það sem þarf til að koma stóru verkefnunum í gang. Í stað þess að fara í hefðbundna vörn eigum við að viðurkenna það það þurfi að sækja fastar.  Við höfum rætt um að draga lausa enda í höfn svo m.a. álver í Helguvík komist í gang.

Og á 2. þúsund vel launuð störf. Fólk spyr: Hvað er raunverulega að gerast í því? Ég hef unnið að því verkefni frá árinu 2009 og þar hefur afar lítið breyst. Við sögðum í kosningabaráttunni að framkvæmdir við virkjanir í neðrihluta Þjórsár færu á stað svo fljótt sem verða mætti. Þar er ekkert að gerast og Landsvirkjun hefur ekki selt svo mikið sem 1 mw svo lengi sem elstu menn muni. Sú stofnun hefur mestan áhuga að senda rafmagnið til að Englendingar geti aukið viðrisauka með með því að nýta orkuna þar í framleiðslu, ekki hér. Við ættum að tengja þá stofnun frekar við samfélagið og sjá hvort ekki kveiknaði á einhverjum ljósum við það. Hvernig væri að þetta fyrirtæki okkar landsmanna setti á sína stefnuskrá að að skapa í landinu fjölbreytt- og vel launuð störf? Það er mikilvægara en láta aðrar þjóðir njóta virðisaukans af einni verðmætustu auðlind þjóðarinnar, grænu orkunni.

En tækifærin bíða okkar mun víðar. Fiskiskipastóllinn er orðinn gamall og þar liggja tækifæri að hefja aftur skipasmíðar innanlands. Smíði fiskiskipa eru aftur að færast frá austur Asíu til vesturlanda og má segja að bylgjan sé nú komin að Tyrklandi. Hefjum aftur til virðingar skipasmíði hjá íslenskum fyrirtækjum sem búa yfir þekkingu og vel menntuðum starfsmönnum sem geta tekist á við endurnýjum fiskiskipaflotans. Til þess þarf þrek og áræði. Veita greininni ívilnanir sem aðrar þjóðir hika ekki við og treysta þekkinguna og verðmætasköpunina í landinu. Íslensk fyrirtæki geta smíðað fiskiskip allt að 45 metrum. Hágæða smíði eins og best gerist í heiminum er raunverulegur kostur á Íslandi. Með því að tryggja samkeppnishæfni, öryggi í afhendingu, gæðum og kostnaði má byggja aftur upp sterka grein í skipasmíðum í landinu. Ég varpa því fram að vilnanir gætu í formi viðbótarúthlutunar í kvóta til þeirra útgerða sem létu byggja skip sín í landinu. Þar mætti hugsa sér 100 þorskígildistonn til þeirra útgera sem færu „Íslensku leiðina“. Á móti kemur gjaldeyrissparnaður þar sem aðeins hluti nýsmíðar er greiddur með gjaldeyri en hinn hlutinn með íslenskum skattskyldum krónum og minna atvinnuleysi. Hugsum út fyrir rammann og verum óhrædd við að styrka okkar fyrirtæki eins og allar aðrar þjóðir gera. Hér liggja ónýtt tækifæri.

Önnur mikilvæg leið tengist fjárfestingaleið Seðlabankans. Allir sýna íslenskum knattspyrnumönnum í útlöndum áhuga. Íslenskir knattspyrnumenn í útlöndum fá 20% meira fyrir gjaldeyrir sem þeir nota til fjárfestinga í húsnæði og íbúðum í landinu en innlend fyrirtæki sem stunda milljarða samkeppnisiðnað á erlendum mörkuðum og þeim stendur fjárfestingaleið Seðlabankans ekki opin. Fjárfestingaleið til gjaldeyrissköpunar er önnur útfærsla á tækifærum meðan atvinnulífið er bundið í höftum. Hún byggir á því að nýta fjárfestingaleið Seðlabankans til að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar með því að heimila framleiðendum í tækjabúnaði að skipta gjaldeyrir yfir í krónur á markaðsvirði. Hundruð milljarðar króna í eigu erlendra aðila „Snjóhengjan“ er föst í höftum í landinu. Fengju erlendir aðilar að selja innlendum framleiðendum krónur á markaðsvirði flyst krónueign frá aðila sem lítinn áhuga hefur á eignum á Íslandi til framleiðanda í iðnaði sem myndu nota auknar tekjur til fjárfestinga í þekkingu og iðnaði í landinu og þannig byggja enn frekar undir útflutning  og gjaldeyrissköpun. Höftin og undantekningar eru vandmeðfarin en á meðan við erum föst í þeim verðum við að huga að þeim framleiðendum í landinu sem halda trygg við að reka fyrirtækis sín hér heima. Fjárfestingaleiðin er fyrir fyrirtæki sem eru skráð erlendis og flytja gjaldeyri til landsins en fyrirtækin í landinu sitja ekki við sama borð. Þannig má færa fyrir því rök að 10.000.000 velta í evrum hjá innlendu fyrirtæki sé kaupverðið 1.6 milljarður króna en með fjárfestingaleið Seðlabankans þá fær íslenskt fyrirtæki skráð erlendis 2.1 milljarð króna í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans. Þannig er tryggum heimafyrirtækjum hengt fyrir þjólega íhaldssemi sína með því að bera 500 m.kr. minna úr býtum en íslensk fyrirtæki skráð í útlöndum sem flytja hagnað sinn heim en greiða ekki skatta eða annað af þeim hagnaði. Það að leyfa íslenskum framleiðslufyrirtækjum að skipta netto útflutningstekjum sínum með þessum hætti stórbætir samkeppnishæfni þeirra gagnvart erlendum keppinautum og getur ekki annað en aukið gjaldeyristekjur þjóðarbúsins. Hér er því engu að tapa. Meðan við spilum í höftum verðum við að gefa rétt fyrir þá sem vilja efla byggðirnar og fjárfestingu í landinu.

Ásmundur Friðriksson
alþingismaður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024