Þjóðin láti ekki hræða sig frá verki
Hlutverk stjórnlagaþings er, lögum samkvæmt, „að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands."
Í lögunum er ekkert ákvæði stjórnarskrárinnar undanþegið en nokkrir mjög veigamiklir þættir eru tilteknir sérstaklega sem stjórnlagaþingið skal taka til umfjöllunar.
Af þessu má ráða hið augljósa, að á stjórnlagaþingið þarf að kjósa fólk sem er reiðubúið að vinna samviskusamlega og af einurð að endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Stjórnlagaþinginu ber að gæta að stjórnarskránni í heild sinni og öllum einstökum ákvæðum. Aðeins þannig getur endurskoðunin talist fullnægjandi og vandað verk. Ragnar Aðalsteinsson lögmaður vill að stjórnlagaþingið byrji með autt blað, tabula rasa (það þýðir ekki að stjórnarskráin líti allt öðruvísi út en aðrar vestrænar stjórnarskrár þegar upp verður staðið).
Sá söngur er hafinn að ekki sé þörf mikilla breytinga á stjórnarskránni, að stjórnarskráin hafi nú ekki orsakað hrunið.
Stjórnarskráin orsakaði auðvitað ekki hrunið. Hins vegar hefðu einráðir flokksformenn í ráðherraembættum ekki getað vaðið uppi í samfélaginu eins og raun ber vitni, sérstaklega hin síðari ár, ef í stjórnarskrá hefðu verið tryggð betri skil milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds.
Það var rétt hjá Eríki Tómassyni lagaprófessor, sem hann sagði í Sjónvarpinu í gær, að stjórnmálaflokkarnir voru sáttir við veikt Alþingi og hafa heykst á að breyta stjórnarskránni. Kerfið hentaði sérhagsmunum flokkanna og því hefur verið haldið óbreyttu þess vegna, til stórskaða fyrir land og þjóð.
Þetta dæmi nægir til að réttlæta gagngerar breytingar á stjórnarskránni, þótt ýmis fleiri mætti tína til.
Höfum hugfast að stjórnlagaþingið er til komið að kröfu almennings. Stjórnmálaflokkarnir urðu að láta undan pólitískum þrýstingi í kjölfar hrunsins.
Allar gömlu valdastofnanirnar, öll hin gamalgróna valdaelíta landsins, er skjálfandi á beinunum. Til hennar má rekja sönginn um óbreytt ástand, sönginn um að engra breytinga sé þörf.
Þjóðin á stjórnarskrána. Megi hún ganga glöð verks og ekki láta hræða sig frá því.
Gleðilegt Stjórnlagaþing!
Hjörtur Hjartarson, frambjóðandi 3 3 0 4
Nánari upplýsingar um Hjört Hjartarson og málefni: http://www.dagskammtur.wordpress.com