Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þín ábyrgð er mikil!
Föstudagur 26. maí 2006 kl. 23:20

Þín ábyrgð er mikil!

Nú er komið að því að þú gangir til kosninga og leggir þitt af mörkum til að velja hvaða viðhorf og hvaða einstaklingar fara með stjórn bæjarins næsta kjörtímabil.
Það er mikilvægt að þú veltir því vel fyrir þér hvernig þú verð atkvæði þínu.

Uppbyggingin ekki D-listanum að þakka
Ef þú hugleiðir þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað hér á landi á síðasta kjörtímabili þá sérð þú að það sem er helst sérstakt fyrir Reykjanesbæ er hve seint hún  byrjaði.  Það bendir flest til þess að breytt lánastefna bankanna hafi hleypt þessari miklu uppbyggingu af stað.  Hækkun á fasteignaverði má að mestu leiti rekja til þess að fólki var gert auðveldara að kaupa eða byggja með allt að 100% lánum og hagstæðum vöxtum.  Minnihlutinn í Reykjanesbæ hefur hvatt til uppbyggingar í Innri Njarðvík allt frá 1994.  Það er því engin ástæða til að þakka meirihlutanum sérstaklega fyrir þessa uppbyggingu, hún hefur frekar átt sér stað þrátt fyrir þennan meirihluta en ekki vegna hans.

Fjárhagsstaðan er slæm
Það hefur komið fram að því miður er fjárhagsstaða bæjarins slæm.  Það sýnir m.a. MPA skýrsla sem unnin var af hlutlausum aðila og kemst hann þar að sömu niðurstöðu og við í minnihlutanum höfum jafnt og þétt varað við allt þetta kjörtímabil.
Það er því mikilvægt að nýr meirihluti taki við á næsta kjörtímabili, áður en það verður of seint.  Sjálfstæðismenn hafa sýnt að þeir kunna ekki að fara með opinbert fé.

Vilt þú fella þennan meirihluta?
Ég tók þátt í því sem oddviti Samfylkingarinnar að búa til nýtt framboð A-listann.
Með því eru Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn ásamt óflokksbundnu fólki að bjóða upp á raunhæfan valkost.  Það er eina leiðin til að fella núverandi meirihluta.  Skoðanakannanir hafa sýnt að það eru litlar líkur á að önnur framboð en D-listinn og A-listinn komi mönnum í bæjarstjórn.  Valið er því í raun alræði Sjálfstæðismanna eða tilboð um fyrirfram myndaðan meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks og óflokksbundinna.

Hætta á að atkvæði nýtist ekki
Atkvæði á aðra lista sem ekki skila inn bæjarfulltrúa munu aðeins auka líkurnar á því að núverandi meirihluti haldi velli.  Með því að kjósa slíkan lista ertu í raun að koma þér undan því að velja á milli þessara tveggja valkosta. 
Ég hvet þig því kjósandi góður að íhuga vel þegar inn í kjörklefann er komið hvort þú vilt í raun skipta um meirihluta, ef þú vilt það er aðeins um eina leið að ræða – að kjósa A-listann. 

Jóhann Geirdal fráfarandi oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024