Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

„Þetta getur enginn gert nema þjóðkirkjan“
Sunnudagur 7. apríl 2024 kl. 06:06

„Þetta getur enginn gert nema þjóðkirkjan“

Á ferðum mínum um landið í aðdraganda biskupskjörs rifjast svo ótal margt upp fyrir mér, úr sögu landsins okkar og ríkulegri menningararfleifð.

Til dæmis sagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson, um Fjalla Bensa, hrútinn Eitil og hundinn Leó, sem gerist í óbyggðum þegar Benedikt leitar eftirlegukinda í aðdraganda jóla og lendir í margra daga stórhríð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að mínu mati gæti biskup Íslands horft til Fjalla Bensa í mörgu; með að láta sig varða um þær lifandi sálir sem ekki hafa öruggt skjól í erfiðum aðstæðum, sýna þrautseigju og hugrekki við að halda út þótt á móti blási, og tileinka sér umhyggju til alls sem lifir.

Sauðirnir sem biskup Íslands þarf að uppörva og hlúa að tengslum við, eru vígðir og óvígðir þjónar kirkjunnar, fólkið sem hefur tekið að sér trúnaðarstörf í sóknum og söfnuðum landsins og landsmenn allir þegar biskup ávarpar þjóðina, á stundum gleði og þegar áföll ríða yfir. Rétt eins og Fjalla Bensi fór aldrei einn í sínar eftirleitir, hafði alltaf forystusauðinn Eitil og smalahundinn Leó með í för, á biskup Íslands að vera í samvinnu og samstarfi  við aðra þegar hann gegnir hlutverki sínu.

Þjóðkirkjan er stór og sterk stofnun. Ég fullyrði að engin hreyfing í landinu býr að eins stórum og virkum hópi fólks í sínum röðum  nema ef vera skyldi björgunarsveitirnar, sem við eigum svo margt að þakka. Því þarf að hlúa að söfnuðunum sjálfum, sem eru grunneining þjóðkirkjunnar, í sveit og í borg.  Biskup á að fara fyrir því að efla söfnuðina, styðja þá og styrkja með öllum ráðum.

Þegar Grindvíkingar hittust eftir rýmingu bæjarins í Hallgrímskirkju var haft eftir forsætisráðherra: „Þetta getur enginn gert nema þjóðkirkjan.“ Þetta ættum við þjóðkirkjufólk að muna betur og taka til okkar. Byggjum á þeim ríka arfi sem við eigum og leyfum Jesú Kristi að vera það leiðarljós sem aldrei fennir í kaf.

Elínborg Sturludóttir,
Dómkirkjuprestur.