Þess vegna kýs ég Hannes Bjarnason
Undan farnar vikur hef ég velt því mjög fyrir mér hver skuli fá atkvæði mitt í komandi forsetakosningum. Lengi vel velti ég því fyrir mér að láta þær hreinlega fram hjá mér fara en sem lýðsræðislega þenkjandi manneskja vissi ég svo sem að það myndi ég ekki gera, ekki nema þá að ég færi og skilaði auðu.
Sl. sunnudag heyrði ég síðan í Hannesi Bjarnasyni þar sem hann var í viðtali í Sprengisandi og játa ég að hann kom mér skemmtilega á óvart. Ekki síst sú skoðun hans að hann teldi miður hversu tamt okkur íslendingum er að rakka niður þá sem eru ekki sömu skoðunar og við sjálf. Að það að vera ósammála þýði að viðkomandi aðilar þurfi nánast að hatast hver við annan. Þó Hannes hafi notað annað orðalag þá var þetta eins og talað út úr mínu hjarta.
Ef við sem þjóð ætlum að komast upp úr þessum skotgrafahernaði sem hefur einkennt landið okkar síðustu ár þá verðum við að komast upp úr þessu fari að rífast og rífa hvert annað niður við hvert tækifæri.
Yfirvegaður málflutningur Hannesar og ekki síst málefnalegur málflutningur hreyf mig og minnti mig á hvað okkur vantar í umræðuna hér heima.
Okkur vantar málefnalega og jarðbundna leiðtoga. Þessa kosti hefur Hannes Bjarnason og þess vegna mun atkvæði mitt í komandi forsetakosningar lenda hjá honum. Ég skora á ykkur sem eigið eftir að ákveða ykkur að hætta að hugsa eins og það séu bara tveir frambjóðendur í framboði og hugleiða kosti hvers og eins frambjóðenda áður en þið takið afstöðu. Það gerði ég og Hannes Bjarnason varð fyrir valinu.
Guðný Jóhannesdóttir, viðburðastjórnandi og háskólanemi.