Aðsent

Þess vegna er ég í pólitík
Föstudagur 28. október 2016 kl. 09:12

Þess vegna er ég í pólitík

Vinir mínir hafa stundum furðað sig á því hvað ég er að brölta í þessari pólitík. Sumum þeirra finnst meira segja að ég eigi bara að hætta þessu, tíma mínum væri betur varið í tónlistina enda sé ég hvort eð er betri þar.  Ég viðurkenni að svona samtöl við fólk sem er mér kært fá mig til að velta hlutunum fyrir mér og þá kemst ég alltaf að sömu niðurstöðunni.

Samfélag umburðarlyndis og virðingar
Mér er ekki sama hvernig samfélagið mitt er og ég vil leggja mitt af mörkum til að það einkennist af umburðarlyndi og virðingu fyrir náunganum. Allir þurfa þak yfir höfuðið, eiga jafnan rétt til náms og eiga að njóta bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu. Samfélagið á að grípa þá sem þess þurfa og tryggja þeim mannsæmandi líf um leið og allir sem hafa heilsu til eiga að geta unnið fyrir sér. Þetta er ástæðan fyrir því að ég tek þátt í pólitík sama hvort það er í heima hjá mér í Sandgerði eða á landsvísu. Þetta er líka ástæðan fyrir því að ég geri það undir merkjum Samfylkingarinnar því það er trú mín að sterk hreyfing jafnaðarmanna sé besta leiðin til að tryggja manneskjulegt samfélag. Það hefur hún gert hér á Íslandi í rúm 100 ár og heldur því vonandi áfram næstu öldina líka.

Góð málefnaskrá og öflugir frambjóðendur
Ég er ánægður með þau málefni sem við í Samfylkingunni setjum á oddinn fyrir þessar kosningar og stoltur af því að vera hluti af sterkum hópi frambjóðenda flokksins. Ég er sérstaklega glaður með að geta talað fyrir góðri og auðframkvæmanlegri tillögu okkar um að fyrirframgreiddar vaxtabætur til að hjálpa fólki að eiga fyrir útborgun við kaup á húsnæði. Þetta er leið sem ekki aðeins styður ungt fólk við að komast í sína fyrstu íbúð heldur getur líka orðið til þess að hjálpa þeim okkar sem eru eldri og eru föst á ótraustum leigumarkaði til að komast inn í sitt eigið húsnæði.

Valið er einfalt fyrir Suðurnesjamenn
Sem frambjóðanda sæmir hef ég verið á ferðinni síðustu daga og hitt margt fólk. Sumir hafa fagnað mér, aðrir fussað eins og gengur en margir virðast þó vera nokkuð óvissir um hvað þeir ætli sér að kjósa nú á laugardaginn. Framboðin eru mörg, oft erfitt að greina á milli þeirra og margt ágætt fólk sem gefur kost á sér til starfa þannig að ég skil vel að fólk velti fyrir sér hlutunum. Hins vegar er valið einfalt í mínum huga. Ef fólk á annað borð vill sjá íslenskt samfélag breytast í átt til aukins jöfnuðar og bættrar þjónustu við almenning þá er það aðeins Samfylkingin sem kemur til greina enda frumgerðin nánast alltaf framar endurgerðum sama hvaða nöfnum þær nefnast. Fyrir Suðurnesjamenn er valið sérstaklega auðvelt því Oddný Harðardóttir er eini stjórnmálamaðurinn af svæðinu sem á raunhæfan möguleika á því að vera í lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum á næsta kjörtímabili. Þar að auki tel ég sjálfan mig þekkja vel þau verkefni sem við blasa á svæðinu og við Oddný því geta verið öfluga sveit Suðurnesjamanna á Alþingi.

Ólafur Þór Ólafsson
skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024