Þemadagar hvað?
Í grunnskólum Reykjanesbæjar er unnið mikið og gott starf. Síðan ég útskrifaðist í Kennaraháskóla Íslands fyrir 14 árum þá hefur margt breyst í grunnskólunum. Tölvuvæðingin er komin til að vera og nemendur skila verkefnum sem slá í gegn.
Ég kenni í einum grunnskólanna í Reykjanesbæ. Í skólanum sem þekktur er fyrir að vera með opnar skólastofur og samstarf kennarateyma. Ég starfa í unglingadeild og það er virkilega gaman að mæta í vinnuna. Í unglingadeildinni eru nú komin sófasett í skólarýmið, stofublóm og forláta bókahilla. Deildinni bárust bækur að gjöf frá foreldrum nemenda í skólanum og eru þær nú aðgengilegar í rýminu. Það er allt gert til að gera rýmið vistlegt og námsvænt svo að börnunum líði vel.
Í síðustu viku voru þemadagar í Akurskóla. Margir fullorðnir halda að börnin læri ekki neitt á þemadögum og allt skólastarf sé í óreiðu. Þemadagarnir eru vissulega óhefðbundnir dagar þar sem stundataflan er brotin upp og nemendur fá að fara frjálst í rými skólans og um nágrenni. Nemendur okkar í Akurskóla unnu að þessu sinni með Háttvísi og mannasiði. Við settum upp ljósmynda-maraþon, veggspjaldagerð og kvikmyndasmiðju. Þau máttu koma með myndavélar að heiman og fartölvur ef þau vildu nýta ákeðin myndvinnsluforrit. Sköpunargáfa og hugmyndaauðgi nemenda naut sín og þau komu verulega á óvart.
Til að gera langa sögu stutta þá fóru nemendur um víðan völl í Reykjanesbæ. Hvert sem þau fóru var tekið vel á móti þeim. Verslunarfólk og starfsfólk á Hóteli hér í bæ hjálpuðu þeim að vinna verkefnin vel úr hendi. Ég vil þakka þeim fullorðnu einstaklingum sem urðu á vegi þeirra kærlega fyrir liðlegheitin og hjálpina. Verkefnin sem við fengum í hús voru fjölbreytt, skemmtileg og vel unnin. Unglingar dagsins í dag eru hæfileikarík, áræðin og metnaðarfulll. Þau kunna að nýta sér tæknina og skila verkefnum fljótt og vel.
Að lokum vil ég nefna að Bergþór Pálsson söngvari var gestur okkar í þemavikunni. Hann flutti erindi fyrir nemendur í 6.til 10.bekk um háttvísi byggða á bókinni sinni Vinamót. Bergþór fór á kostum og náði vel til nemendanna.
Ég hlakka til næstu þemadaga í Akurskóla sem verða 30. maí til 1.júní. Þá verður útiþema og af nógu er að taka.
Ingigerður Sæmundsdóttir,
umsjónarkennari í Akurskóla