Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Þekkingarsetur Suðurnesja tekið til starfa
Laugardagur 1. desember 2012 kl. 13:24

Þekkingarsetur Suðurnesja tekið til starfa

Þekkingarsetur má finna víða um landið en megin markmið þeirra er að stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar, rannsókna, fræðastarfs og atvinnuþróunar. Jafnframt að þróa námsleiðir og námskeið á háskólastigi í samstarfi við háskóla og aðrar menntastofnanir, sem og önnur þekkingarsetur.
Í apríl síðastliðnum fengum við Suðurnesjamenn okkar eigið þekkingarsetur þegar Þekkingarsetur Suðurnesja var stofnað. Það tók formlega til starfa nú á haustmánuðum að Garðvegi 1 í Sandgerði. Setrið starfar á þekkingargrunni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, Náttúrustofu Reykjaness, Botndýrastöðvarinnar og Fræðaseturs Sandgerðisbæjar, sem nú hefur sameinast Þekkingarsetrinu. Áherslusvið setursins er náttúrufræði og tengdar greinar. Þann 21. nóvember undirritaði Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, samning ráðuneytisins við Þekkingarsetur Suðurnesja að viðstöddu fjölmenni í húsnæði setursins. Nýtt merki setursins var afhjúpað við tilefnið.

Markmið og starfsemi Þekkingarseturs Suðurnesja

Starfsemi Þekkingarseturs Suðurnesja tekur mið af markmiðum, hlutverki og skyldum stofnananna sem í húsinu eru. Markmið setursins snúa fyrst og fremst að rannsóknum, fræðslu, þjónustu og samstarfi við aðrar rannsókna- og fræðslustofnanir bæði hér á landi og erlendis. Þekkingarsetrið er miðstöð rannsóknastarfs og rannsakenda í náttúrufræðum og tengdum greinum á Suðurnesjum, með frumkvæði að rannsóknaverkefnum og samstarfi við rannsóknaraðila, innlenda jafnt sem erlenda. Mikil áhersla verður lögð á gott og öflugt samstarf við rannsókna-, mennta- og fræðslustofnanir sem og fyrirtæki sem tengjast viðfangsefnum setursins, á Suðurnesjum og annars staðar á landinu.



Árið 1992 var Botndýrastöðin stofnuð utan um verkefnið BIOICE. Frá þeim tíma hafa rannsóknir verið stundaðar í húsnæði Þekkingarsetursins. Náttúrustofa Reykjaness var síðan stofnuð árið 2000 og Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum sex árum síðar. Síðan þá hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar og fjöldinn allur af erlendum vísindamönnum hafa dvalið þar í gegnum árin, oft vikum saman, við rannsóknavinnu. Gistiaðstaða er í boði fyrir þá sem eru við tímabundin störf í húsinu og nýta langflestir sér hana. Á þeim fáu vikum sem hafa liðið síðan Þekkingarsetrið tók formlega til starfa hafa átta erlendir vísindamenn og háskólanemar dvalið þar við rannsóknir. Íslenskir og erlendir meistara- og doktorsnemar sem hafa unnið að rannsóknum fyrir lokaverkefni sín á síðastliðnum árum eru farnir að skipta tugum. Kapp verður lagt á að fjölga rannsóknaverkefnum sem unnin eru í Þekkingarsetrinu en þó með höfuðáherslu á gæði rannsókna og birtingu niðurstaðna.

Fjöldi þeirra grunnskólanemenda, einstaklinga og hópa sem hafa komið í heimsókn til að skoða sýningarnar í húsinu er orðinn mikill. Síðan Fræðasetrið var stofnað 1995, fyrst sinnar tegundar á landinu, hefur verið tekið á móti skólahópum grunnskólanemenda frá ýmsum stöðum, bæði hérlendis og erlendis, sem koma til að skoða náttúrugripasýningu og sýninguna „Heimskautin heilla“ sem fjallar um franska heimskautafarann og vísindamanninn Jean-Baptiste Charcot. Áhersla er lögð á fræðslu um lífríki hafsins og fjörunnar og oft er vettvangsferð í fjöruna fléttað saman við heimsóknina þannig að nemendur fá tækifæri til að safna lífverum og skoða í víðsjám í Þekkingarsetrinu. Markmiðið er að efla þessa þjónustu við bæði grunn- og framhaldsskóla enn frekar með það fyrir augum að vekja áhuga nemenda á náttúrufræðum og möguleikunum sem skapast með námi á því sviði.

Starfsemi Þekkingarseturs Suðurnesja er enn ung þó að stofnanirnar að baki henni hafi margra ára reynslu á sviði rannsókna og fræðslu. Af þeirri ástæðu er mikils að vænta af Þekkingarsetrinu sem vonandi mun efla rannsóknastarf, menntun og samvinnu á Suðurnesjum enn frekar.
   
Við hvetjum alla til að kíkja í heimsókn til okkar á Garðveginn og jafnframt að fylgjast með því sem er að gerast á fésbókarsíðu Þekkingarsetursins: www.facebook.com/thekkingarsetursudurnesja

Ný heimasíða mun síðan líta dagsins ljós von bráðar!

Hanna María Kristjánsdóttir
forstöðumaður
Þekkingarseturs Suðurnesja

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024