Þekking á okkar eigin styrkleikum mikilvæg
Jákvæð sálfræði er vísindagrein sem fæst við rannsóknir á hamingju og vellíðan. Greinin hefur verið í þróun sl. tvo áratugi og segja má að um sé að ræða nýja nálgun, byggða á gömlum grunni. Meginhlutverk almennrar sálfræði hefur, í gegnum tíðina, verið að skoða sjúkdóma og vandamál og hjálpa fólki að greina þau, ná bata og vera andlega heilbrigt. Rannsóknir í jákvæðri sálfræði beinast hins vegar fyrst og fremst að því, hvað fær einstaklinga til að blómstra, hvernig þeir geta nýtt styrkleika sína og byggt frekar upp það sem gott er.
Í rannsóknum jákvæðu sálfræðinnar eru gjarnan notaðar aðferðir sem kallast jákvæð inngrip. Þá eru sett fyrir verkefni sem þátttakendur inna af hendi í stuttan tíma og síðan er kannað hvaða áhrif þau hafa á hamingju og vellíðan. Eitt slíkra inngripa kallast „Þrír góðir hlutir“ og snýst um að leiða hugann, á hverjum degi, að þrem góðum hlutum sem áttu sér stað yfir daginn og hvaða þátt maður sjálfur átti í þeim. Þetta er æfing sem reynst hefur áhrifarík og ég hvet alla til að prófa. Ég mæli jafnframt með „appi“ sem heitir „Happapp“, sem minnir m.a. á að gera slíkar æfingar og býður upp á möguleika til að skrá þrjá góða hluti á hverjum degi.
Annað jákvætt inngrip snýst um að greina og nýta betur styrkleika sína. Komið hafa fram mjög jákvæð áhrif þessa inngrips fyrir hamingju og vellíðan. Í þessu samhengi er gerður ákveðinn greinarmunur á styrkleikum og hæfileikum. Hæfileikar geta verið áskapaðir og jafnframt er hægt að kasta þeim á glæ, séu þeir ekki ræktaðir. Aftur á móti eru styrkleikar ákveðin persónuleikaeinkenni sem eru til staðar hjá einstaklingi í ólíkum aðstæðum og einkenna hugsanir hans, tilfinningar og athafnir. Þegar við erum meðvituð um styrkleika okkar og notum þá í daglegu lífi, getur það haft margvísleg jákvæð áhrif á líðan okkar, m.a. aukna hamingju, minni streitu, aukna bjartsýni og betri sjálfsmynd. Fyrir áhugasama er hægt að taka vandaða könnun á netinu sem greinir styrkleika einstaklinga frá 10 ára aldri.
Notkun styrkleika í barnauppeldi kallast „styrkleikamiðað uppeldi“ eða „strength based parenting“. Þá horfa foreldrar eftir jákvæðum gjörðum og jákvæðum eiginleikum hjá börnunum og auka þannig vitund þeirra á styrkleikum. Þeir hvetja jafnframt börnin til að nota þá og þróa. Unglingar sem hafa fengið styrkleikamiðað uppeldi eru líklegri til að vera meðvitaðir um styrkleika sína og að nota þá, sem síðan eykur líkur á hamingju og vellíðan. Notkun styrkleika í uppeldinu hefur einnig jákvæð áhrif á hvernig börn og unglingar takast á við streituvaldandi aðstæður. Hægt er að læra margt fræðilegt um styrkleika, en þó að við þekkjum ekki endilega nöfn þeirra eða skilgreiningar, er mikilvægt að horfa eftir því jákvæða og hrósa fyrir það sem vel er gert.
Þegar við hrósum börnum, er mikilvægt að tilgreina hvað það er sem vel er gert og reyna að draga athygli að þeim styrkleikum sem notaðir eru við verkefnin. Ef við hrósum börnum fyrir að vera gáfuð, snillingar, klár o.s.frv. getum við aukið líkurnar á að þau hræðist það að standa ekki undir væntingum (festuhugarfar). Það getur verið erfitt að standa undir því að vera snillingur eða vera klár. Hins vegar sé barni hrósað fyrir að leggja sig fram, sýna þrautseigju og nota styrkleika eins og hugrekki, vinsemd, heiðarleika eða sanngirni þá ýtum við undir aukna nýtingu á styrkleikunum og jafnframt þá hugsun að hægt sé að bæta sig með því að leggja sig fram (gróskuhugarfar).
Þekking á okkar eigin styrkleikum og annarra og aukin notkun þeirra er það minnsta sem við getum gert til að hafa sem mest áhrif á hamingju og vellíðan.
Laufey Erlendsdóttir,
markþjálfi og kennari