Þekkið þið Gróu á Leiti?
Í bænum okkar býr yfirgnæfandi stór hópur orðvars og góðs fólks sem stendur með okkur í að byggja upp gott samfélag í Reykjanesbæ. Við höfum því kosið að líta framhjá orðum fámenns hóps rógbera sem hefur reynt að grafa undan friðhelgi einkalífs okkar með alvarlegum ósannindum og ávirðingum. En stundum er nauðsynlegt að spyrna við fæti og mæta rógberunum. Staðreyndin er sú að undanfarið ár hafa nokkrir menn stundað þá iðju að dreifa um bæ og borg veðbókavottorði heimilis okkar, í Innri Njarðvík.
Aðgerðin hófst með ferð eins þeirra á skrifstofu sýslumanns þar sem hann fékk afrit af veðbókarvottorðinu. Honum tókst að fá það án þess að við eigendurnir fáum uppgefið nafn hans, en útgáfudagsetningin er skýrt skráð á veðbókavottorðið sem dreift er.
Undanfarið ár hefur hann svo, með hjálp félaga sinna, dreift ljósritum af veðbókavottorðinu, bæði persónulega og í pósti í Reykjanesbæ og Reykjavík.
Því fylgja orð um hvað lánin séu orðin há og að vafasöm viðskipti liggi að baki þeim lánum sem hvíla á heimili okkar. Einn þeirra gerði m.a. tilraun til að koma því efni á síður DV. DV sá hvers eðlis var og neitaði að fjalla um málið en úr því varð þó sandkorn. Bréfin sem send eru í pósti, eru stíluð til einstaklinga, án þess að bréfritarar segi til nafns. Í bréfunum er samansafn af óhróðri um Árna og meðfylgjandi er veðbókavottorðið. Engin undirskrift.
Í Gróusögum þessara manna er fullyrt að við séum „gjaldþrota.“ Gefið er í skyn að þau lán sem við tókum á nýbyggingu okkar að Kópubraut í Innri Njarðvík, séu tekin m.a. til að fjármagna stórfelld hlutabréfakaup sem nú séu einskis virði. Hrein ósannindi. Fullyrt er að við höfum tekið 800 milljón kr. kúlulán, sem nú sé fallið! - Allt hrein ósannindi! Síðustu Gróusögur munu víst fjalla um að fasteignafélag í eigu bæjarins hafi keypt af okkur húsið. Hrein ósannindi.
Hið rétta er að við höfum aldrei tekið þátt í hlutabréfaviðskiptum með lántökum, sem mikið tíðkuðust á undangengnum árum. Við höfum talið mikilvægt að bæjarstjóri geti verið óháður slíkum aðilum og fyrirtækjarekstri. Við erum einfaldlega ekki í neinu braski og heimili okkar er ekki til sölu! Hið eina sem við erum „sek“ um er að hafa tekið 70 milljóna kr. lán sem hvílir á heimili okkar og vinnuaðstöðu Bryndísar. Virði eignarinnar kemur skýrt fram í byggingarskýrslum og fasteignamati. Við erum í hópi þeirra fjölmörgu sem eiga nú húseign sem er á þessari stundu minna virði en lánin sem hvíla á henni. Við erum engin undantekning frá stöðu fjölmargra annarra og höfum hvergi reynt að skjóta okkur undan þeirri ábyrgð. En við erum skilvísir greiðendur þessara lána og treystum okkur til að vera það áfram. Engin vanskil.
Hvað þeim mönnum gengur til sem virðast nærast á því að dreifa þessum óhróðri, er ekki umfjöllunarefni okkar hér. Þær lýsa illu innræti. Aldrei stóð til að svara þessum tilhæfulausu ávirðingum. Að okkar mati er augljóst að einstaklingur sem dreifir nafnlausum bréfum með óhróðri hefur eingöngu ógeðfelldan tilgang. Við töldum að aðferðin og lygarnar í bréfunum myndu dæma sig sjálf.
En miðað við þá umræðu sem vinir okkar heyra er okkur nóg boðið. Við segjum, hingað og ekki lengra! Nú þurfa Gróurnar á Leiti, sem reyndar eru örugglega karlkyns í þessu tilviki, að stunda sjálfsskoðun.
Við eigum ekki að sætta okkur við þessa rógbera. Við eigum að skera upp herör gegn þeim, hvar sem þeir finnast. Vonandi getur einhver sem þetta les stutt okkur í að taka á þeim.
Með vinsemd,
Árni Sigfússon og Bryndís Guðmundsdóttir