Þeir sögðu ósatt
Í ræðum á Alþingi í gær, sem útvarpað og sjónvarpað var fyrir alþjóð, létu alþingismennirnir Atli Gíslason og Bjarni Harðarson falla ummæli í minn garð sem eru alger ósannindi.
Atli Gíslason sagði m.a. að Reykjanesbær væri eigandi í Háskólavöllum, sem keypt hafi 1700 íbúðir og ég væri þar stjórnarformaður! Þar væri ég að gæta hagsmuna báðum megin við borðið. Þetta eru ósannindi. Reykjanesbær er ekki eigandi að Háskólavöllum. Ég er þar hvorki stjórnarformaður né í stjórn þess félags. Ég á enga hluti í því félagi og á engra persónulegra hagsmuna að gæta í því félagi.
Bjarni Harðarson fullyrti í ræðu fyrir alþjóð að ég ætti persónulega hluti bæði í Þróunarfélagi Keflavikurflugvallar og skólafélaginu Keili sem stofnað var til að byggja upp vísindasamfélag á fyrrum varnarsvæði. Þetta eru einnig hrein ósannindi. Ég á engra persónulegra hagsmuna að gæta í þessum félögum. Ég á enga hluti í þessum félögum.
Ég starfa að uppbyggingarverkefnum á Vallarheiði en svæðið er m.a. hluti af Reykjansbæ. Ég starfa þar sem fulltrúi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Reykjanesbæjar. Netþjónabú, kvikmyndaver, flugakademía, orkusetur, nemendagarðar og menntasamfélag eru afurðir uppbyggingar á Vallarheiði.
Ég mun hvergi gefa eftir í því hlutverki til að skapa öflugt og nýstárlegt atvinnulíf með heiðarlegum hætti, þátt fyrir ósannindi og fortölur þessara manna.
Ég krefst þessa að þingmennirnir leiðrétti ósannindin í minn garð.
Árni Sigfússon,
Bæjarstjóri í Reykjanesbæ