Þegar forseti bæjarstjórnar og hamarinn fóru á límingunum
- yfir góðum fréttum!
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 5. mars gerðist sá fáheyrði atburður að Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar, vísaði Eysteini Eyjólfssyni, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, úr ræðustól þegar Eysteinn fagnaði í ræðu sinni tímótaáfanganum í uppbyggingu Helguvíkurhafnar sem náðist á föstudaginn. Forseta bæjarstjórnar var svo mikið í mun að stöðva jákvæðu fréttirnar að fundarhamarinn fór á límingunum og hrökk í sundur við atganginn.
Neðangreind bókun okkar bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar fékkst því ekki bókuð:
„Við fögnum ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá föstudeginum 1. mars um að ganga til viðræðna við Reykjanesbæ um málefni Helguvíkurhafnar og fjárframlag ríkisins til uppbyggingar þar. Í framhaldi viðræðnanna verður málið síðan afgreitt með lögum frá Alþingi.
Þar með er ljóst að ekki mun standa á hafnarframkvæmdum til að gera þjónustu mögulega við þau fyrirtæki sem hefja vilja starfsemi sína í Helguvík en sem kunnugt er þá liggja fyrir staðfestir fjárfestingarsamningar vegna álvers og kísilvers í Helguvík.
Suðurnesjamenn hafa í næstum áratug sóst eftir fjárhagslegum stuðningi við Helguvíkurhöfn en ekki haft árangur sem erfiði. Þrátt fyrir að þingmenn, bæjarfulltrúar og ráðherrar hafi unnið hörðum höndum að verkefninu hefur ekkert þokast fyrr en nú.
Niðurstaða vinnuhóps sem Oddný G Harðardóttir, þáverandi fjármála- og iðnaðarráðherra, setti af stað vorið 2012 með það verkefni að vinna að undirbúningi aðkomu ríkisins að hafnargerð í Helguvík og að Bakka, markaði tímamót fyrir baráttu okkar Suðurnesjamanna fyrir uppbyggingu í Helguvík. Skýrar yfirlýsingar Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, og Katrínar Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra styðja framhald verksins.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar tryggir áframhaldandi uppbyggingu í Helguvík, mikilvægt verkefni fyrir Suðurnesjamenn alla. Nú er fjármögnun frá ríkinu til hafnaruppbyggingar loks í höfn og það á vakt ríkisstjórnar jafnaðarmanna“.
Friðjón Einarsson
Eysteinn Eyjólfsson
Hjörtur M Guðbjartsson