Þau sögðust „geta gert það“

Nú hefur Samfylkingin, Framsóknarflokkur og Bein leið myndað nýjan meirihluta í Reykjanesbæ og eftir að hafa lesið yfir málefnasamningin milli flokkana þá er greinilegt hver stefnan verður. Engin lausn fyrir Helguvík og málið sett í nefnd. Þar með koma litlar sem engar tekjur inn fyrir þeim skuldaklafa sem höfnin er í og skuldir Reykjanesbæjar halda áfram að vaxa. Árleg vaxtagjöld Reykjaneshafnar eru nær helmingi hærri en tekjurnar. Mér er spurn, hvernig ætla menn að ná að greiða niður skuldir þegar augljós tekjuaukning er ýtt út af borðinu? Á sama tíma og verið er að gera ráð fyrir þessum tekjum í aðlögunarætlun Reykjanesbæjar og stefnt að því að ná lögbundnu skuldaviðmiði fyrir árið 2022.

Þegar málefnasamningurinn var kynntur tók ég eftir því hvað oddviti Framsóknarflokksins stoltur af honum. Ég fylgdist vel með í kosningabaráttunni og kynnti mér loforðaflaum Framsóknarflokksins ágætlega. Þeir vildu fara aðrar leiðir og ég hef gaman af því þegar fólk hugsar út fyrir kassann, hvort sem það sé í stjórnmálum eða atvinnulífinu. Þeir vildu t.a.m yfirtaka rekstur heilsugæslunnar, lofuðu kennurum árlega 500 þúsund króna eingreiðslu óháð kjarasamningum og kjörorðið var „Við getum gert það“.

Ég geri ráð fyrir því að margir kennarar og fjölskyldur þeirra hafi hoppað á vagninn og kosið B-lista með von um að fá þessa launahækkun, enda sögðust þau geta gert það. Lesandi yfir málefnasamninginn er ekki annað að sjá en að það sé ansi rýr uppskera hjá Framsóknarflokknum og að prinsippum hafi verið kastað á glæ til að komast til valda. Þau hafa ekki náð inn einu einasta af sínum helstu loforðum; en eru samt stolt og ánægð með fengin hlut: Forseti bæjarstjórnar seinni hluta kjörtímabilsins. Kannski var bara markmiðið að komast í meirihluta, skítt með málefnin og fólkið sem kaus þau.
Þau sögðust „geta gert það“. Samkvæmt þessum samningi munu þau ekki geta það! Kæri kjósandi Framsóknarflokksins, þú hefur verið snuðaður!

Davíð P. Viðarsson