Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þátttökukort A-listans gera íþrótta-, tónlistar- og tómstundaiðkun barna ódýrari
Þriðjudagur 9. maí 2006 kl. 14:39

Þátttökukort A-listans gera íþrótta-, tónlistar- og tómstundaiðkun barna ódýrari

Við erum öll sammála því að ekkert er mikilvægara en jákvætt og uppbyggilegt uppeldi barnanna okkar í góðu umhverfi. Við viljum ekkert frekar en að börnin okkar fái þá allra bestu líkamlegu og andlegu næringu sem völ er á hjá skólum, íþróttafélögum og tómstundafélögum, sem öll bjóða upp á einstaklega góða þjónustu sem því miður allir fá ekki notið.

25.000 kr. fyrir öll börn 6-16 ára á hverju ári
A–listinn í Reykjanesbæ gerir sér fyllilega grein fyrir ofangreindum atriðum og ætlar með þinni aðstoð, ágæti kjósandi, að gera bragabót á. Fyrir liggur að bæjarfélagið styrkir íþróttafélögin, tónlistarnám og ýmis tómstundafélög með því að greiða niður kostnað við þessa starfsemi sem er af hinu góða og ber að viðhalda. Við ætlum hins vegar taka eitt gríðarlega mikilvægt skref til viðbótar sem er að styrkja hvert barn á aldrinum 6 – 16 ára um 25. 000 krónur á ári til þessarar iðkunar. Þetta þýðir að ef t.a.m. barnið þitt greiðir 4000 krónur í iðkendagjöld á mánuði þá greiðir það einungis um 2000 krónur eftir að A–listinn er tekinn við rekstri bæjarfélagsins. Þetta er eitt af grundvallaratriðunum í því að gera öllum jafnt undir höfði því þetta eykur möguleika fjölda barna að bæta við sig í andlegum og líkamlegum gjörvuleika.

Nauðþurftir og verðmætamat sjálfstæðismanna
Það er sorglegt þegar stjórnmálaöfl innan bæjarfélagsins fara að blanda saman nauðþurftum barnanna okkar, líkt og að fá heita skólamáltíð í hádeginu og verðmætamati eins og sjálfstæðismenn gera í nýútkomnu glansplaggi sínu. En svo merkilega vill til að sama stjórnmálaafl gefur öllum börnum innan bæjarfélagsins á ákveðnum aldri frítt í sund, án þess að minnast á verðmætamat.
Mér finnst það góðra gjalda vert að börn fái frítt í sund, en við megum aldrei setja saman þarfir barnanna okkar og verðmætamat. Við metum börnin okkar á því hvernig þau spjara sig í þeim aðstæðum sem þau lenda í hverju sinni og á þeirri leið ber okkur að gera allt sem í okkar valdi stendur til að greiða götu þeirra. Ég held að við getum öll verið sammála um að andleg ánægja barnanna okkar endurspeglist í andlegri ánægju okkar allra. Ágæti kjósandi, verum ábyrg og kjósum fólk sem vill vinna fyrir þig og velferð barnanna þinna.

Eðvarð Þór Eðvarðsson
Kennari, þjálfari og frambjóðandi A-listans í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024