Þakkir til kjósenda í Suðurkjördæmi
- Aðsend grein frá Oddnýju Harðardóttur
Innilegar þakkir til ykkar sem studduð Samfylkinguna-jafnaðarmannaflokk Íslands í nýafstöðnum kosningum. Þar með hlaut ég endurnýjað umboð til að vera þingmaður Suðurkjördæmis og heiti þvi að standa undir þeirri ábyrgð sem því fylgir. Verkefnin eru mörg og ég hlakka til að vinna með ykkur á kjörtímabilinu að bæta hag landsmanna og íbúa Suðurkjördæmis.
Ég tók við sem formaður Samfylkingarinnar tæpum fimm mánuðum fyrir kosningar. Á þeim stutta tíma tókst ekki að snúa við erfiðri stöðu flokksins og ekki þarf að taka það fram að niðurstaða kosninganna er mér mikil vonbrigði.
Viðbrögð mín við þeirri afgerandi niðurstöðu var að stíga til hliðar sem formaður Samfylkingarinnar. Afsögn formanns við slíkar aðstæður er ekki hefð hér á landi en tíðkast í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Ég veit að sum ykkar sem studduð mig í formannskosningunni eruð ekki sátt við þessa ákvörðun en að mínu mati var hún óhjákvæmileg fyrir þá uppbyggingu innan flokksins sem framundan er.
Þó að Samfylkingin hafi ekki náð árangri í þessum kosningum þá kemur dagur eftir þennan dag og við höldum baráttunni áfram. Það mun aldrei skapast sátt í samfélagi þar sem lífskjör eru eins ójöfn og hér er raunin og blasir við hverjum sem vill sjá. Nú eru það sérhagsmunir sem hafa almannahagsmuni undir og það verðum við að stöðva. Það er því afar mikilvægt að byggja upp starf öflugs jafnaðarmannaflokks að nýju.
Ég mun leggja mig alla fram við þá vinnu sem framundan er við að efla Samfylkinguna, því sjaldan hefur verið mikilvægara en nú að rödd jafnaðarmanna heyrist kröftuglega í íslenskum stjórnmálum og á Alþingi.
Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi