Þakkir til Suðurnesjamanna – konur eru líka menn
Ágætu íbúar Suðurnesja, konur og karlar. Síðustu vikur og mánuðir hafa verið sérstakir og erfiðir. Daglegt líf hefur gengið úr skorðum. Um svipað leyti og farfuglarnir flykkjast til Íslands hafa stóru fuglarnir, flugvélarnar sem flytja til okkar erlenda gesti og opna heiminn fyrir Íslendingum, þagnað. Ef til vill er það áþreifanlegasta merkið um það undarlega ástand sem við búum við vegna COVID-19-faraldursins en sá illi faraldur hefur sett mjög margt úr skorðum. Sundlaugar, íþróttahús, æfingasalir og ekki síst skólar hefur verið lokað. Allt atvinnulíf hefur gengið úr skorðum. Æði mörg orð mætti hafa um það sem við er að fást.
Á sama tíma og lífsmynstri okkar hefur verið rækilega raskað eru þó björt teikn á lofti. COVID-19-smit eru ótrúlega fá á Suðurnesjum. Það er mörgu að þakka en stærsta þáttinn eiga íbúar Suðurnesja sem farið hafa eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis og tilmælum yfirvalda. Það er yfirvöldum ómetanlegt að eiga slíkan stuðning vísan, að vita það að íbúarnir finna til samfélagslegrar ábyrgðar, sjálfum sér og öðrum til heilla.
Þeim sem staðið hafa í fararbroddi, heilbrigðisstarfsfólki, sjúkraflutningamönnum, lögreglu og öllum sem staðið hafa í ströngu og veitt faraldrinum viðnám með öruggum hætti er einnig þakkað. Allir hafa lagst á eitt í því viðnámi. Árangurinn er sá að varnarbarátta okkar allra hefur skilað varnarsigri. Smitum hefur ekki fjölgað um nokkurt skeið og stöðugt fækkar þeim sem sitja þurfa í sóttkví.
Öll ölum við þá von í brjósti að líf komist smám saman í eðlilegan gang á ný, þótt sjálfsagt breytist sumt í lífsmynstri þjóðarinnar til framtíðar. Boðaðar hafa verið tilslakanir á samkomubanni og ýmis konar þjónusta verður leyfð. Hárgreiðslu-, rakara-, nuddstofur, sjúkraþjálfun, snyrtistofur, söfn og sambærileg starfsemi mega opna hinn 4. maí næst komandi, en halda skal tveggja metra fjarlægð milli viðskiptavina eins og kostur er. Þá mun að óbreyttu verða miðað við 50 manns sem hámark þeirra er koma saman. Skólar taka þá aftur til starfa og að sjálfsögðu skal fara að leiðbeiningum um sóttvarnir.
Sjómennska var lengi grundvallarþáttur í lífi Suðurnesjamanna. Eftir því var tekið um allt land hvernig tekist var á við sjóinn.
Ólína Andrésdóttir orti braginn Suðurnesjamenn. Þar er að finna setningu sem er við hæfi að endurtaka hér: „Kunnu þeir að stýra og styrk var þeirra mund.“ Það er ekki tilviljun að þessi setning komi upp í hugann við þessar aðstæður.
Margir hafa lagt hönd (mund) á plóginn í varnarbaráttu okkar. Öllum skal þakkað en nú fyrst og fremst íbúum Suðurnesja. Höldum vöku okkar og sýnum staðfestu. Sagt er að öll él stytti upp um síðir. Það mun gerst með samstilltu átaki okkar allra.
Íbúar Suðurnesja. Kærar þakkir fyrir hönd lögreglunnar á Suðurnesjum og allra í framvarðsveitum,
Ólafur Helgi Kjartansson,
lögreglustjóri á Suðurnesjum.