Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þak á verðtryggingu fram að upptöku evru
Laugardagur 17. nóvember 2012 kl. 11:57

Þak á verðtryggingu fram að upptöku evru

Fórnarkostnaður lítillar þjóðar við að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli er afar hár. Beinn kostnaður vegna viðvarandi hærri vaxta hleypur á tugum milljarða á ári. Milljarða kostnaður fellur á heimili og fyrirtæki ár hvert, þegar allt leikur í lyndi, en við fall gjaldmiðils í kreppu margafaldast kostnaðurinn við krónuna og kemur fram á mörgum sviðum. Lánin hækka, matur og eldsneyti einnig  og almennt dregur úr kaupmætti fólks.

Samfylkingin hefur einn flokka svarað því hvert hún stefnir í þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar og lagt fram skýra stefnu í gjaldmiðils- og peningamálum landsins til lengri tíma litið. Aðild að ESB og upptaka evru í framhaldi af því er okkar markmið og eini sjáanlegi valkosturinn við núverandi stöðu.
Hins vegar þarf Samfylkingin eins og aðrir flokkar að leggja fram tillögur um skammtímaaðgerðir til að verja húsnæðislán heimilanna fram að upptöku evru. Ein slík aðgerð gæti verið að festa mögulega hækkun neysluverðsvísitölu veittra lána á ári t.d. við tiltekna prósentu, hvort sem það er 2 eða 3% svo dæmi sé tekið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með slíku þaki á verðtryggingu yrði kostnaði við verðlagsbreytingar skipt af sanngirni á milli lánveitenda og skuldara.

Stærstu álitaefnin í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið eru að tryggja að Ísland haldi fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum, helst með sérstöku fiskveiðistjórnarsvæði. Einnig að skapa landbúnaðinum og landsbyggðinni traustan stuðning til að mæta minni tollvernd og semja um tengingu krónu við evru í kjölfar aðildar að ESB.

Gangi þetta fram er góður samningur í höfn. Önnur samningsatriði eru léttari viðfangs vegna aukaaðildar okkar að sambandinu í gegnum EES-samninginn.

Verðtryggð króna í höftum og sífelldri verðmætarýrnun er valkosturinn við upptöku evru. Einhliða upptaka annarra þjóða mynta hefur alltaf verið slegin út af borðinu. Enda fylgja því margvíslegar og meiriháttar skuldbindingar að hleypa einu samfélagi inn á myntsvæði annars.

Afnám verðtryggingar og viðvarandi lágir vextir eru ekki einu kostirnir við að kasta krónunni og taka upp traustan og stöðugan gjaldmiðil. Þeir felast ekki síður í því að byggja upp trausta og stöðuga umgjörð efnahagsmála. Öfluga umgjörð sem bindur endi á tímabil öfgakenndra sveiflna liðinna áratuga. Þær sveiflur hafa þýtt eignaupptöku og kaupmáttarrýrnun hjá almennu launafólki en ábata fyrir útflutningsgreinarnar.
Umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu er að mínu mati mikilvægasta ákvörðun Alþingis í utanríkismálum um áratugaskeið. Aðildarumsóknin er einstakt tækifæri til að komast út úr því samfélagi hafta og sérhagsmuna sem lengi hefur verið til staðar á Íslandi. Aðildin er ekki síður rækileg tiltekt eftir margra áratuga óstöðugleika í gjaldmiðils- og efnahagsmálum.

Því er til mikils vinnandi að umræðan um aðild sé málefnaleg og hófstillt. Hún hefur einkennst af hræðsluáróðri og heimsendaspámennsku sem eiga ekki við nein rök að styðjast. Við höfum í tæpa tvo áratugi verið auka-aðilar að Evrópusambandinu án nokkurra áhrifa á störf þess né möguleika á að taka þátt í því sem mestu skiptir fyrir litla þjóð við nyrsta haf; gjaldmiðilssamstarfi.

Björgvin G. Sigurðsson,
1. þingmaður Suðurkjördæmis.