Það verður ekkert hik á Helguvík
Allt bendir til þess að í dag eða á morgun afgreiði Alþingi fjárfestingasamning um álver í Helguvík. Hann samdi Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, og Katrín Júlíusdóttir, formaður iðnaðarnefndar og þingmaður Samfylkingar, leiddi úr nefnd til þingsins. Fyrir liggur að Vinstri grænir standa ekki að málinu en aðrir flokkar á þingi styðja málið og mun það því fram ganga.
Því er hægt að ná þeim áfanga að fjárfestingarsamningur verður gerður við Norðurál sem nú þegar hafa fjárfest fyrir milljarða í framkvæmdunum. Það verður því ekkert hik á Helguvíkurframkvæmdum og samningurinn afgreiddur úr þinginu fyrir þinglok. Þess má geta að gert er ráð fyrir að allt að 400 milljarðar af erlendum gjaldeyri komi inní landið vegna framkvæmdanna.
Þetta er mjög mikilvægt. Nú þurfum við að nýta orkuna í jörðinni með skynsamlegum hætti í sátt við náttúruna. Við verðum að skapa fleiri störf. Framleiða meiri verðmæti og því er uppbygging stóriðju, gagnavera og annars hátækniiðaðs afar mikilvæg. Þannig vinnum við okkur út úr samdrættinum auk þess að leita leiða til að móta nýja peningamálastefnu með stöðugum og sterkum gjaldmiðli. Nýjum lögeyri sem markar endalok verðtryggingar og upphaf lágra vaxta á lánskjör.
Strax í haust er talið að um 3000 manns verði að vinna við uppbyggingu Helguvíkurversins og tengdra virkjana. Enn fleiri þegar líður á veturinn. Þetta tekur mikinn slaka af mannvirkja- og þjónustugeiranum. Því má ekki hika við atvinnuuppbyggingu núna þegar illa árar um heim allan í mestu efnahagskreppu síðustu áttatíu ára í veröldinni.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður og oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.