Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Það þarf samfélag til að ala upp barn
Nemendur á Leikskólanum Holti.
Mánudagur 6. mars 2017 kl. 06:00

Það þarf samfélag til að ala upp barn

- Aðsend grein frá kennurum á Leikskólanum Holti

Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ hefur verið í Evrópuverkefni Erasmus+ síðastliðið eitt og hálft ár. Verkefnið er samstarfsverkefni milli Íslands, Spánar, Póllands og Slóveníu og ber heitið „Through democracy to literacy”. Kennarar þátttökuskólanna skiptast á að ferðast milli landa og læra hver af öðrum til að bæta vinnubrögð og auka þekkingu sína á lýðræði og læsi, sem eru tveir af grunnþáttum menntunar samkvæmt aðalnámskrá leikskóla, 2011. Samstarfsverkefnið skiptist í fjögur tímabil. Á tímabili eitt var hlutverk kennarans skoðað og hittust kennarar samstarfslandanna í Póllandi í október 2015. Tímabil tvö sneri að hlutverki og virkni barnsins og hittust kennarar á Íslandi í apríl 2016. Þriðja tímabilið sem fjallað verður nánar um í þessari grein snerist um foreldrasamstarf. Fjórða tímabilið sem skólarnir eru að vinna að eins og stendur snýst um dagskipulag og leikskólaumhverfið og mun hópur kennara hittast í Slóveníu í mars 2017. Í október 2016 fóru átta kennarar frá leikskólanum Holti, ásamt kennurum frá Póllandi og Slóveníu til La Rioja héraðsins á Spáni. Í héraðinu er skóli sem kallast C.R.A. Alto Cidacos. Þar eru fjórir litlir skólar í smábæjunum Herce, Prejano, Arnedillo og Enciso sem kennararnir fengu tækifæri til að heimsækja auk þess sem þeir heimsóttu skóla í Logroño, Caballero De La Rosa sem vakti áhuga þeirra.

Hugmyndafræði skólans byggir á þátttöku samfélagsins í menntun barnanna sem rannsóknir hafa sýnt fram á að reynst hafi vel. Skólinn er staðsettur á svæði þar sem margir innflytjendur búa og þótti skólinn áður vera annars flokks í samfélaginu en í dag er skólinn vel sóttur og vinsæll í héraðinu. Það sem stendur upp úr eftir heimsóknina til La Rioja er munurinn á íslenskum og spænskum kennsluaðferðum, hegðun nemenda og virkni foreldra í skólastarfi barna sinna. Á Spáni sáum við meiri sjálfsstjórn, ábyrgð og virðingu hjá nemendum en hjá okkar nemendum á Íslandi sjáum við meiri virkni, frumkvæði og sköpun. Á Spáni var skólastarfið kennarastýrðara en við erum vanar á Holti og teljum við líklegt að það spili stóran þátt í hegðun og framkomu barnanna. Við viljum kenna börnunum okkar sjálfsstjórn, virðingu og ábyrgð en viljum samt sem áður að einstaklingar búi yfir frumkvæði, séu virkir og skapandi, bæði í hugsun og framkvæmd. Hvernig náum við að samtvinna þessa þætti? Við getum verið sammála um hvert hlutverk kennarans er og hvert hlutverk barnanna er. En hvert er hlutverk forsjáraðila sem leikskólaforeldra? „Það þarf samfélag til að ala upp barn.” Með hvaða hætti getum við eflt jákvætt hugarfar foreldra til foreldrasamstarfs án þess að foreldrar upplifi samstarfið sem kvöð? Við teljum að hér á landi þurfi vitundarvakningu í samfélaginu varðandi þátttöku foreldra í námi barna sinna. Við viljum vekja áhuga foreldra á samstarfi með fjölbreyttu upplýsingaflæði, bjóða upp á möguleika símats og fjölbreyttar leiðir til þátttöku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heiða Mjöll Brynjarsdóttir, leikskólakennari
Guðrún Kristjana Reynisdóttir, leik- og grunnskólakennari