Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig
– Sigurrós Antonsdóttir skrifar
Líkt og flest venjulegt fólk þá viljum hafa rétt til að lifa og starfa á jafnréttisgrundvelli í því umhverfi sem við búum í, vera frjáls að tjá okkur um skoðanir okkar og geta haft áhrif þegar kemur að ákvörðunum er snerta okkur öll.
Að búa í samfélagi þar sem allir eru jafnir er mín heitasta ósk. Strax í leikskóla er börnunum okkar kennt að allir séu jafnir, hafi sömu tækifæri og búi við sama réttlæti. Tökum sem dæmi Hjallastefnuna sem er til fyrirmyndar er kemur að fræðslu á jöfnuði milli einstaklinga. Borðin sem börnin sitja við eru merkt, fjórir sitja við sama borð og línurnar á borðinu eru til að sýna börnunum að allir hafi sitt pláss og ekki sé rétt að fara yfir línuna eða fara út fyrir mörkin.
Börnin hafa einnig ákvörðunarrétt í eigin verkefnum á svokölluðum valfundum, þar sem fram fer lýðræðislegt val, þau velja sjálf eigin verkefni í leikskólastarfinu. Þarna er verið að kenna börnunum okkar að virða rétt annara og sýna hvort öðru virðingu. Við getum tekið þetta til fyrirmyndar, bætt um betur í umhverfi okkar og stuðlað að auknu jafnrétti í bæjarmálum.
Saman getum við þetta
Það hefur verið erfitt að horfa upp á hvernig núverandi meirihluti í bæjarstjórn hefur varið peningunum okkar undanfarin áratug og selt eignir okkar og orku án þess að við venjulegir bæjarbúar fengum nokkuð um það að segja. Sem jafningi á meðal jafninga er hér búum hefði ég viljað fá tækifæri til að kjósa um þessarar ákvarðanir.
Við þurfum að breyta bænum okkar. Stjórnsýslan þarf að vera opnari, skilvísari og gegnsærri. Við verðum að stuðla að auknum jöfnuði og standa saman um að gera bæjarfélagið okkar betra til að búa í. Það er hægt að snúa við blaðinu. Við þurfum að bretta upp ermar og hefjast handa. Þetta er hægt ef við, fólkið í bænum, tökum höndum saman og gerum kröfur um að á okkur sé hlustað.
Hvernig Reykjanesbæ viljum við?
Hvernig sjáum við fyrir okkur bæinn okkar í framtíðinni? Viljum við breyta honum í verksmiðjubæ, mengaðan af gufum stórverksmiðja eða viljum við bæ sem er grænn, umhverfisvænn og fagur? Bæjarbúar eiga að fá að fá að taka þá ákvörðun sjálfir og milliðalaust, ekki ólíkt því sem við erum að kenna börnunum á fyrstu skólastigunum.
Við uppskerum eins og við sáum. Leggjum meira í að byggja upp góða framtíð í bæjarfélaginu með vinnu og ákvörðunum sem skila okkur heilbrigðu náttúruvænu umhverfi.
Hugum að börnunum okkar, leggjum meiri áherslu á enn betri skóla og leikskóla. Hlúum að æskunni og látum börnin okkar ekki upplifa stéttarskiptingu, fátækt og ójöfnuð.
Við getum snúið dæminu við. Það er enn tími. Það er komin tími til að breyta til.
Við munum stjórna bænum okkar á opnari og ábyrgari hátt en nú er gert, með bæjarbúum. Saman getum við breytt og gert bæinn okkar betri.
Sigurrós Antonsdóttir
5. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar og óháðra í Reykjanesbæ