Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Það sem þarf að gera
    Atvinnuuppbygging í Helguvík strandar á fjárfestingum sem sveitarfélagið þarf að fara í við Helguvíkurhöfn.
  • Það sem þarf að gera
Föstudagur 2. október 2015 kl. 13:38

Það sem þarf að gera

– Oddný G. Harðardóttir skrifar

Eftir að hafa heyrt viðhorf allra sveitarstjórna í Suðurkjördæmi síðustu daga er kristaltært að flytja þarf breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið ef ekki á illa að fara.

Samgöngur

Mikil fjölgun ferðamanna undanfarin ár hefur haft stórkostlegar breytingar í för með sér sem ekki eru viðurkenndar í fjárlagafrumvarpinu, helsta stefnuplaggi ríkissjórnarinnar. Þegar fjölgun ferðamanna á vegum landsins nemur hundruðum þúsunda er augljóst að álagið á vegakerfið krefst aukins viðhalds. Nú eru tengivegir og afleggjarar sem heimamenn nýttu nánast einir áður einnig orðnir fjölfarnir ferðamannavegir með tilheyrandi sliti en þeim er ekki heldur haldið við. Álag á lögregluna hefur að sjálfsögðu aukist í takt við fjöldan sem fer um landið og nú er svo komið að þjónusta við íbúana situr á hakanum. Sama má væntanlega segja um heilsugæslu víðast hvar um land.

Ákall um aukið fé í vegagerð og viðhald vega mátti heyra alls staðar um Suðurlandið. Það tengist auknum ferðamannastraumi að sumu leyti en að öðru leyti, líkt og í Vestmannaeyjum fyrst og fremst nauðsynlegri þjónustu við íbúa með byggingu nýrrar Vestmannaeyjarferju.

Húsnæði

Allir tala um húsnæðisvanda. Sumir vegna þess að ferðamenn fara í öll hús sem losna en aðrir vegna kostnaðar við byggingu húsnæðis sem aldrei fæst til baka við sölu. Á Suðurnesjum og í Þorlákshöfn þarf að leysa vanda sem skapast hefur þegar að íbúðir í eigu íbúðalánasjóðs eða banka, standa lengi auðar og grotna niður þannig að of dýrt þykir að koma þeim í íbúðarhæft ástand. Slíkt húsnæði er sum staðar stærsti hluti heilu gatnanna og við það ástand er ekki hægt að búa til lengdar. Vonir eru bundnar við samninga við Íbúðalánasjóð og vegna annars vanda í húsnæðismálum er enn beðið eftir frumvörpum frá ríkisstjórninni sem búið er að tala um svo lengi en líta ekki dagsins ljós.

Dæmi er um sveitarfélög sem hafa tekið  stakkaskiptum í samsetningu íbúa við aukin ferðamannastaum.  Þar fækkar börnum í skólanum en íbúum  fjölga vegna einhleypra útlendinga sem starfa tímabundið við ferðamennsku.

Tekjur

Mikill munur er á rekstrarstöðu sveitarfélaga í Suðurkjördæmi. Stóru útgerðarbæirnir eins og Grindavík, Vestmannaeyjar og Höfn standa vel á meðan að sveitarfélögin sem eru hvað vinsælust af ferðamönnum eru í verri stöðu og bera kostnað af ferðamönnunum. Allir sveitarstjórnarmenn tala  þó um nauðsyn þess að bæta við tekjustofnum sveitarfélaga. Útsvarið eins og það er, fasteignargjöldin og framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga duga almennt ekki fyrir rekstri lengur. Ég er þeirrar skoðunar að sveitarfélög eigi að fá hlutdeild í arði af auðlindum þjóðarinnar. Hlutdeild í veiðigjaldi að sjálfsögðu og í tekjum af ferðamönnum. Einfaldast og nærtækast er að ferðaþjónustan öll verði í almennu virðisaukaskattsþrepi  eins og aðrar þjónustugreinar í landinu og sveitarfélögin fái þar hlutdeild. Það er einfaldlega hneyksli að ferðamenn greiði neysluskatta fyrir gistingu og afþreyingu eins og almenningur greiðir fyrir mat, bækur og orku. Allir vita hins vegar að ef illa fer og ferðamönnum fækkar þá mun  kostnaðurinn lenda á almenningi. Stjórnvöld sitja aðgerðarlaus hjá á meðan að ferðaþjónustan stækkar stefnulaus okkur yfir höfuð. Ráðaleysi og fum ráðherra málaflokksins er himinhrópandi og verkstjórn við ríkisstjórnarborðið engin.

Suðurnes

Í öllum sveitarfélögum er kallað eftir auknu fé í málefni fatlaðra og sveitarfélögin segjast skila málaflokknum ef ríkið geri ekki bragabót þar á. Við blasir mikill vandi í málefnum aldraðra víðast hvar, ekki síst á Suðurnesjum og beðið er eftir áætlanagerð stjórnvalda sem lætur á sér standa.

Þyngst er umræðan á Suðurnesjum þar sem stærsta sveitarfélagið Reykjanesbær stendur afar illa. Við þá stöðu veikjast öll sveitarfélögin og samstarf þeirra einnig. Atvinnuuppbygging í Helguvík strandar á fjárfestingum sem sveitarfélagið þarf að fara í við Helguvíkurhöfn. Þær framkvæmdir verða ekki að veruleika nema með aðkomu ríkisins sem dregur lappirnar. Það eina sem þarf er pólitískur vilji til að leggja sveitarfélagi lið sem annars færi í fang ríkisins að öllu leyti ef ekki tekst að rétta við fjárhaginn. Málið snýst um íbúa Suðurnesja og velferð þeirra. Stjórnarþingmenn Suðurkjördæmis eru nógu margir til að fella ríkisstjórnina. Þeir hafa hins vegar beitt  afli sínu til að fella tillögur stjórnarandstöðunnar um fjárframlag til Helguvíkurhafnar en samþykkja um leið framlag til annarra hafna eins og ekkert sé.
 
Það er ekki nóg að bera sér á brjóst og tala um hallalausan ríkissjóð og að ferðamönnum hafi fjölgað mest í heim hér á landi. Stjórnvöld verða að átta sig á því að kostnaður og álag á opinberri þjónustu fylgir með til viðbótar almennri þjónustu við íbúa landsins. Við því verður að bregðast.

Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024