Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Það sem bæjarstjórinn á við!
Laugardagur 13. janúar 2007 kl. 11:13

Það sem bæjarstjórinn á við!

Nafna minn Finnsson hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands hef ég gjarnan varið þegar mér þykir menn ætla honum ósanngirni í umræðunni. Ég hef vonast til að hægt sé að halda umræðu um umhverfisvernd á skynsamlegum nótum. Skynsemin segir okkur að hlusta á viðvaranir þeirra sem helst fjalla um umhverfismálin, afla bestu upplýsinga, leita samstarfs við þá sem reynast tala af skynsemi, nýta þekkingu þeirra og ná sáttum um öfluga atvinnuuppbyggingu þar sem sjónarmið umhverfisverndar eru virt. Í grein Árna á vef VF í gær gerir hann lítið úr þeim sjónarmiðum sem ég hef uppi, finnst ólíklegt að ég eða sveitarstjórnirnar geti haft áhrif á mengunarvarnir álvers í Helguvík. Hann gefur í skyn að úr því að álverið sé fjær byggð muni því leyfast að menga meira en ella.  Ég get glatt Árna með því nú þegar að þetta verður alls ekki raunin. Ég undrast þessa vantrú. Ég veit að á sjónarmið okkar umhverfissinna er hlustað, við höfum áhrif og við höfum tök á að taka þátt í leit og nýtingu bestu tækni. Ég vona því að við getum átt betri samræður og samstarf um fyrirliggjandi verkefni en þetta fyrsta útkall Árna Finnsonar til mín hljómar.

Heimurinn horfir til jarðgufuvirkjana.

Í skýrslu Bruntland,  Our Common Future eru ríki heims hvött til þess að á 21. öldinni verði lögð höfuðáhersla á virkjun og nýtingu endurnýjanlegra auðlinda jarðar.  Okkur Íslendingum ber siðferðileg skilda til þess að leggja okkar að mörkum í baráttunni gegn mengun andrúmsloftsins og hnatthitnun, sem við gerum best með því að virkja og fjölnýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir landsins. Virkjun og fjölnýting jarðhitageyma grunnt og djúpt í gliðnunarbelti landsins er öðrum þjóðum gott fordæmi, sem hvetur til frekari rannsókna og vinnslu jarðhita í heiminum. Stóraukin vinnsla jarðhita í heiminum er ein mikilvæg leið af mörgum, sem allt mannkyn á til þessa að sporna gegn loftmengun og aukinni hnatthitnun af mannavöldum.

Stóriðja á borð við álver kallar á mikla orkuöflun. Víðar en í Bruntlandskýrslunni er hvatt til jarðgufuvirkjana til orkuöflunar og þær taldar ótvírætt til vistænnar orkunýtingar framtíðarinnar. Það reynist þó ekki sama hvernig vistvæna orkan er unnin. Leiðirnar geta kallað á mismikla röskun umhverfis t.d. uppistöðulóna líkt og við Kárahnjúka. En það þarf einnig að vanda til við jarðgufusvæðið sem virkjað er og koma haganlega fyrir lögnum frá virkjunarstað, alla leið til notandans. Því færri virkjunarsvæði, því minna jarðrask og sjónmengun. Þess vegna eru t.d. stefnuboranir, sem beitt hefur verið með góðum árangri hérlendis undanfarin ár, mikilvægt framlag þar sem þær lágmarka jarðrask með því að bora má fleiri holur frá sama borstað. Auk þess er áhugavert að horfa til rannsókna á djúpborun og þeirra  miklu framtíðarmöguleika sem þar kunna að skapast, en HS hefur verið frumkvöðull í þeim pælingum.
Einnig er tæknin að gera okkur kleift að nýta betur gufu frá virkum borholum og ná þannig mun meiri orku frá þeim en hægt var fyrir nokkrum árum.
Hitaveita Suðurnesja vill heilbrigt samstarf við náttúruverndarsamtök.

HS vill vera í fararbroddi góðrar umgengni við umhverfið. Sem dæmi um þetta er tillaga HS um að draga til baka rannsóknaleyfi í Brennisteinsfjöllum því við tökum undir þau sjónarmið að þar sé mjög viðkvæmt og sérstakt svæði.

HS hf hefur virkjað háhitasvæðin í auðlindagörðum með fjölnýtingu að skæru leiðarljósi. Gott dæmi um þetta er auðlindagarðurinn í Svartsengi með Bláalónið sem vel heppnað dæmi um fjölnýtingu (fræðsluferðamennska, böð og afþreying, lækning, þörungarækt og vinnsla "læknandi" steinefna úr úr jarðhitavökvanum, öflug rannsóknar- og þróunarstarfsemi ("high tech"). Annað dæmi um fjölnýtingu er Auðlindagarðurinn á Reykjanesi með Reykjanesvirkjun sem megin hyrningastein. Í auðlindagarðinum á Reykjanesi verður fræðslusýningin Orkuverið Jörð tekin í notkun um mitt þetta ár og nú þegar er komið á samstarf um þörungarannsóknir og könnun á hagkvæmni þörungaræktar í auðlindagarðinum. Volgur hreinn kælisjór Reykjanesvirkjunar er dýrmæt auðlind, sem vakið hefur athygli og áhuga margra og býður nýtingar.  

Á vinnslutíma jarðgufuvirkjana geta verið óhjákvæmileg óæskileg ummerki í umhverfinu, en þau ber strax að laga að loknu jarðraski. Það sem gert hefur verið í þeim efnum er ekki allt til fyrirmyndar. En þegar menn viðurkenna slíkt, felst í því vilji til að gera betur. Mynd sem Árni birtir með grein sinni í VF sýnir einmitt slíka stöðu, áður en betur var frá gengið. Hann birtir ekki mynd af svæðinu eftir að búið var að laga það. Hann veit heldur ekki hvernig það var sundurskorið af utanvegaakstri áður en HS hóf vinnu sína. Það er rík ástæða er til að herða að akstursáhugamönnum, fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra að sýna umhverfinu virðingu.

Álver sem verði í fararbroddi umhverfistækni.


Hinn þáttur umhverfismálanna snýr að útblæstri frá iðnfyrirtæki sem skapar yfir 1000 fjölskyldum viðurværi. Þetta eru áform um álver við Helguvík.
Gríðarlegur árangur hefur náðst á undanförnum áratugum við að draga úr mengun af völdum þessa útblásturs. Flúor sem fer í andrúmsloftið er hverfandi lítið, sama á við um brennistein og svifryk, en koltvísýringur hefur farið nokkuð óheftur út í andrúmsloftið hjá starfandi álverum. Það eru til leiðir til að draga enn frekar úr óæskilegum útblæstri.
Vothreinsun en ein leiðin. Hún dregur betur úr útblæstri brennisteins en þurrhreinsun.
Þá gera vísindamenn sér vonir um að niðurdælingaraðferð sé áhugaverð framtíðarlausn, þar sem útblásturinn binst efnasamböndum við basalt í jarðveginum, líkt og nóg er af á svæðinu í Helguvík. Ég hef formlega óskað eftir samstarfi Reykjanesbæjar, HS, Norðuráls og Orkuveitunnar um þróun á þessari tækni í tengslum við álverið í Helguvík og mjög vel hefur verið tekið í það af ofangreindum aðilum.
Þá hefur verið þróuð tækni sem nýtir háhitabrennslu til að eyða óæskilegum útblæstri. Fulltrúar slíkrar tækni hafa komið hingað og átt við okkur viðræður sem reyndust mjög áhugaverðar og lofandi um leiðir til að draga verulega úr loftmengun.

Mér þykir leitt að Árni Finnsson geri lítið úr yfirlýsingum mínum og áhuga á að brýna fyrir mönnum að við ætlumst til þess að fyrirhugað álver verði fyrirmynd annarra álvera í mengunarvörnum, útliti og aðkomu. Við ætlumst til þess að borsvæði séu vel frá gengin, svo og línulagnir. Það var fyrir okkar tilstuðlan, bæjarstjórnarmanna í Reykjanesbæ, að skilgreint iðnaðarsvæði á Reykjanesi var minnkað 2003 og settar fram hugmyndir um nýtingu svæðisins til útivistar og orkunýtingar.
Ég hefði að fyrra bragði talið nafna minn fagna því að við næðum saman um slíkar kröfur. Ég býð Árna Finnssyni til samtarfs um heilbrigð áform þar sem við bæði virðum umhverfið og ölfum komandi kynslóðum öruggra og vel launaðra starfa.

Árni Sigfússon
bæjarstjóri í Reykjanesbæ

 

 


Þessi mynd sýnir einn af ótal slóðum og hjólförum sem lágu í víð og dreif um svæðið vegna utanvegaaksturs áður en HS  hóf undirbúning. Með vegagerð HS var farið nærri slóðunum og sumstaðar í þeirra leið þannig að utanvegaakstur ætti að minnka til muna. Moldin sem var á mynd Árna Finnssonar í jöðrunum var að mestu nýtt til að græða hluta þeirra sára sem fyrir voru á svæðinu. Jarðvegsskipti voru óhjákvæmileg vegna þungans á bornum og öðrum hlutum sem við verkið eru notuð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024