Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Fimmtudagur 20. september 2001 kl. 09:38

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft

Starfsfólk Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar ritar reglulega bréf um starfsemi skrifstofunnar. Að þessu sinni er m.a. fjallað um foreldra sem mikilvægar fyrirmyndir.

Grundvallaratriði mannlegra samskipta er virðing, hlýja og einlægni. Þetta á líka við um samskipti okkar við börnin. Áhrifamesta fyrirmyndin sem börnin hafa eru foreldrar þeirra. Í fjölskyldunni tileinkar barnið sér samskiptamynstur sem það síðar ber með þér þangað sem leið þess liggur út í lífið meðal annara, t.d. á leikskóla, skóla, vinnustað og síðan í sína eigin fjölskyldu.

Árekstrar og vandamál vera á vegi allra, alla ævi, það er bara hluti af því að vera til. Þessa árekstra þarf að leysa og það er misjafnt hversu vel fólki gengur að leysa vandamál og árekstra. Árekstra þarf að vinna þannig úr að enginn tapi eða vinni og að allir læri af reynslunni. Viðbrögð hinna fullorðnu skipta miklu máli fyrir reynslu og þroska barnsins, það lærir af foreldrum sínum hvernig eigi að leysa mál sem upp koma.

Það er mikil ábyrgð falin í uppeldishlutverkinu. Þar sem tveir eða fleiri fullorðnir bera ábyrgð á uppeldi barna er mikilvægt að samræmi sé í uppeldisaðferðum. Það þýðir að fólk verði að tala saman um uppeldið, lesa sér til og leita sér ráða. Með því að sýna afskiptaleysi eða vera of eftirlátur eru foreldrar í raun að firra sig ábyrgð á uppeldinu. Sumir er líka of strangir við börn sín þannig að sjálfsvirðing þerirra getur skaðast. Börn þurfa reglu, festu og aga. Þetta er hægt að veita þeim með samskiptum sem byggjast á virðingu og hlýju.

Bein tengsl eru á milli þess hvernig börnum líður og hvernig þau hegða sér. Þegar börnum líður vel hegða þau sér vel. Hér er ábyrgð hinna fullorðnu mikil. Sýnið börnunum áhuga, búið til ánægjulegar samverustundir í hversdagleikanum. Slökkvið á sjónvarpinu og gerið eitthvað með börnunum, bakið saman, farið í göngu, sund, leyfið börnunum að hjálpa til við eldamennskuna. Gleymið ekki að þakka þeim fyrir aðstoðina, fyrir góðu stundirnar o.s.frv. Ræðið við börnin, hlustið á þau, berið virðingu fyrir skoðunum þeirra. Hjálpið þeim að eiga góðar minningar um bernsku sína og verið þeim góð fyrirmynd.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024